Gerwyn Price og Peter Wright nýttu sér samfélagsmiðla til að sættast eftir hasarinn í undanúrslitaviðureign þeirra á HM í pílukasti í Alexandra Palace í gær.
Wright vann einvígið en Price hafði talað digurbarkalega í aðdraganda leiksins eins og hann er reyndar þekktur fyrir. Það kastaðist í kekki á milli þeirra eftir fyrstu tvö settin og í leikslok sá Price sér ekki fært um að þakka Wright fyrir leikinn.
Fyrir það fékk hann skammir frá Wright í viðtali eftir leik en þeir hafa nú sæst eins og sjá má á Twitter síðu Price í dag þar sem hann birtir bæði afsökunarbeiðni sína og eins svar Wright til hans.
Wright undirbýr sig nú fyrir úrslitaleikinn gegn ríkjandi heimsmeistaranum Michael Van Gerwen en það fer fram á nýársdag klukkan 19:00 og verður sýnt beint á Stöð 2 Sport.
— Gerwyn Price (@Gezzyprice) December 31, 2019