Fótbolti

Van Gaal sjálfum að kenna að hann var rekinn en ekki Woodward

Anton Ingi Leifsson skrifar
Louis van Gaal gengur svekktur af velli á Old Trafford.
Louis van Gaal gengur svekktur af velli á Old Trafford. vísir/getty

Mark Ogden, einn af ritstjórum ESPN, segir að það hafi verið Louis van Gaal sjálfum að kenna að hann hafi verið rekinn frá Manchester United en ekki stjórnarformanninum Ed Woodward.

Van Gaal fór mikinn í fjölmiðlum í síðustu viku þar sem hann kallaði Woodward öllum illum nöfnum. Hann sagði að hann hafi verið ástæðan fyrir því að hann hafi verið rekinn og að samtal milli Ed og Mourinho hefði átt sér stað löngu áður en Van Gaal var rekinn.

„Louis hefur alltaf verið mjög bitur yfir því hvernig þetta endaði hjá Manchester United,“ sagði Mark Ogden er hann var gestur í Sunday Supplement á Sky Sports. „En verum bara hreinskilnir. Síðustu sex mánuðirnir þá var það klárt að hann væri að fara vera rekinn því úrslitin voru ekki góð.“

Van Gaal var ráðinn til United 19. maí 2014 en tveimur árum síðar eftir að hafa unnið enska bikarinn með 2-1 sigri á Crystal Palace var Hollendingurinn rekinn.

„Undir lokin þá voru leikmennirnir að segja að þeir gátu ekki spilað fyrir hann lengur því hann væri svo erfiður á æfingavellinum. Það var ómögulegt að spila fyrir hann og hann tók allt frjálsræði frá öllum. Það er auðvelt að kenna Ed Woodward um þetta en það eina sem er hægt að kenna honum um er að gefa Van Gaal pening fyrir mönnum eins og Memphis, Schweinsteiger, Darmian, Rojo, Di Maria og listinn heldur áfram.“

„Kaup Van Gaal voru ömurleg. Fótboltinn var skelfilegur og úrslitin mjög slök svo ég held að hann geti ekki kennt neinum öðrum en sjálfum sér um að hafa verið rekinn. Woodward væri ekki að vinna starfið sitt ef hann myndi ekki ákveða fyrir framan hver er næsti stjóri þegar sá sem er í starfinu nú er augljóslega að mistakast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×