Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, segist búast við að afsala sér þeim neyðarvöldum sem honum voru falin vegna kórónuveirunnar síðar í þessum mánuði.
Orban hefur síðustu vikurnar getað stýrt landinu með tilskipunum einum saman og þannig sniðgengið ungverska þingið. Meirihluti ungverska þingið veitti Orban völdin í mars og sagði þau nauðsynleg til að landið gæti tekist á við faraldurinn með skilvirkum hætti.
Fyrirkomulagið hefur sætt mikilli gagnrýni, bæði í Ungverjalandi og á alþjóðavettvangi og hafa margir sakað Ungverja um að hafa kastað lýðræði fyrir roða.
Þannig sendu utanríkisráðherrar Norðurlandanna – Guðlaugur Þór Þórðarson þar með talinn – bréf til aðalritara Evrópuráðsins þar sem tekið var undir áhyggjur hans af þróuninni í Ungverjalandi. Bréfið vakti mikla reiði innan ungversku stjórnarinnar og kallaði utanríkisráðherra Ungverjalands sendiherra Norðurlandanna á teppið til að ræða málið.
„Við gerum ráð fyrir að stjórnin geti skilað þessum sérstöku valdaheimildum til að takast á við heimsfaraldurinn, til þingsins í lok maí,“ sagði Orban á Facebook-síðu sinni í gær.
Eftir fund með serbískum starfsbróður sínum, Aleksandar Vucic, í Balgrad, sagði Orban að þetta myndi veira öllum tækifæri til að biðja Ungverjaland afsökunar vegna ósanngjarnra ásakana. „Það er enginn grundvöllur fyrir þessa gagnrýni og þegar þeir biðjast afsökunar, þá búumst við við aðdáun þeirra vegna þeirrar velgengi Ungverjalands við að verjast veirunni.“
Alls hafa verið skráð rúmlega 3.400 smit í Ungverjalandi og eru 442 dauðsföll rakin til Covid-19.