Körfuknattleiksdeild Keflavíkur lofar að koma nakin fram takist henni að selja 250 sýndarmiða fyrir klukkan 20:00 í kvöld. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá deildinni á Facebook.
Menn deyja ekki ráðalausir í Keflavík en körfuknattleiksdeild félagsins hefur staðið fyrir fjáröflun undanfarið á Karolina Fund. Liðið átti frábært tímabil í Domino´s deild karla í vetur áður en deildinni var aflýst vegna kórónufaraldursins. Þeir stefna á svipaðan árangur á næstu leiktíð og hafa nú þegar hafið fjármögnun.
Hefur hún gengið vel en betur má ef duga skal. Því hafa stjórnarformenn lofað því að hlaupa 100 metra spretthlaup á Nettó-vellinum, heimavelli fótboltaliðs Keflavíkur, takist þeim að selja 250 sýndarmiða fyrir klukkan 20:00 í kvöld.
Það er þó einn hængur á.
Munu þeir hlaupa naktir takist þeim að selja 250 miða. Hvort þetta auki líkurnar á því að miðarnir seljist verður ósagt látið en það er ljóst að menn fara nýstárlegar leiðir þegar kemur að því að ná sér í pening í Keflavík.