Erlent

Chauvin ákærður fyrir skattsvik

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mynd af lögreglumanninum Derek Chauvin, eftir að hann var handtekinn. Hann hefur nú verið ákærður fyrir skattsvik.
Mynd af lögreglumanninum Derek Chauvin, eftir að hann var handtekinn. Hann hefur nú verið ákærður fyrir skattsvik. RCSO/AP

Derek Chauvin, fyrrverandi lögreglumaðurinn sem olli dauða George Floyd þegar hann kraup á hálsi hans í hátt í níu mínútur, hefur verið ákærður fyrir skattaundanskot.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Þar segir að Chauvin og fyrrverandi eiginkona hans, sem skildi við hann í kjölfar þess að hann var handtekinn fyrir morðið á Floyd í maí, séu sökuð um að skulda skattayfirvöldum í Minnesota hátt í 38 þúsund dollara, eða um fimm milljónir króna.

Derek Chauvin og fyrrverandi eiginkona hans, Kellie Chauvin, eru alls ákærð í níu liðum fyrir að hafa falsað skattskýrslur annars vegar og fyrir að hafa ekki skilað skattskýrslum hins vegar.

Þeim er gefið að sök að hafa ekki gefið upp alls 434 þúsund dollara af sameiginlegum tekjum sínum frá árinu 2014, eða rúmlega 63 milljónir króna. Hluta þeirra tekna aflaði Chauvin í hlutastarfi sem öryggisvörður samhliða störfum sinnar inan lögreglunnar í Minneapolis.

Imran Ali saksóknari hefur sagt að í framvindu rannsóknarinnar gæti komið í ljós að hjónin fyrrverandi skulduðu hærri fjárhæðir en þegar eru komnar fram.

Chauvin er nú í haldi lögreglunnar, og hefur verið það síðan hann var ákærður fyrir morðið á George Floyd í lok maí síðastliðins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×