Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um sex umferðarslys á rúmum klukkutíma í gærkvöldi. Tilkynnt var um fyrsta slysið klukkan 18:37 og hið síðasta klukkan 20. Færð var afar slæm á höfuðborgarsvæðinu í gær, snjóþungt og hvasst.
Fyrst var tilkynnt um umferðarslys í Grafarvogi þar sem bíl var ekið aftan á annan við hringtorg á sjöunda tímanum. Um fimmtán mínútum síðar var bíl ekið í veg fyrir annan á gatnamótum í Mosfellsbæ. Ekki urðu slys á fólki en önnur bifreiðin er óökufær eftir seinna óhappið.
Þá varð tveggja bíla árekstur í Kópavogi um klukkan sjö. Ekki urðu slys á fólki en önnur bifreiðin er óökufær.
Tilkynnt var um tvo árekstra til viðbótar með þriggja mínútna millibili skömmu síðar, þann fyrri í Breiðholti klukkan 19:09 og hinn síðari í Kópavogi klukkan 19:12. Í báðum tilvikum var um tvær bifreiðar að ræða en ekki urðu slys á fólki, að því er segir í dagbók lögreglu.
Lögreglu í Hafnarfirði barst svo tilkynning frá ökumanni sem misst hafði stjórn á bifreið sinni í óveðrinu í gærkvöldi og ekið á ljósastaur um áttaleytið í gærkvöldi. Ekki urðu slys á fólki en HS Veitur voru upplýstar um tjónið á staurnum.