Bandaríski ökuþórinn Ryan Newman slasaðist alvarlega í árekstri í Daytona 500 kappakstrinum í Flórída í gær. Daytona 500 er stærsti kappakstur tímabils á NASCAR-mótaröðinni.
Áreksturinn varð á lokahring kappakstursins. Newman var með forystu þegar Ryan Blaney keyrði aftan á hann.
Bíll Newmans snerist, fór á vegg, skaust þaðan upp í loftið og þegar bíllinn lenti klessti annar ökumaður á hann. Bíll Newmans rúllaði svo eftir brautinni í ljósum logum. Myndband af árekstrinum má sjá hér fyrir neðan.
Newman var fluttur á spítala í skyndi. Samkvæmt tilkynningu frá liði hans, Roush Fenway Racing, er hann alvarlega slasaður en ekki í lífshættu.
— Roush Fenway (@roushfenway) February 18, 2020
Newman, sem er 42 ára og ekur Ford Mustang, vann Daytona 500 í fyrsta og eina skipti á ferlinum fyrir tólf árum.
Denny Hamlin hrósaði sigri í Daytona 500. Þetta er annað árið í röð og í þriðja sinn á síðustu fimm árum sem Hamlin vinnur Daytona 500 kappaksturinn.
Það mátti ekki tæpara standa en Hamlin kom í mark 0,014 sekúndum á undan Blaney. Aldrei hefur munað jafn litlu á tveimur efstu mönnum í Daytona 500.
Venjulega eru eknir 200 hringir í Daytona 500 en að þessu sinni voru þeir 209.