Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni hæstaréttardómarans Benedikts Bogasonar um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í máli hans gegn Jóni Steindari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara.
Benedikt, sem er starfandi dómari við Hæstarétt Íslands, höfðaði meiðyrðamál gegn Jóni Steinari vegna ummæla í bókinni „Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ þar sem fram kemur hvöss gagnrýni Jóns Steinars á dóm Hæstaréttar í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Jón sakar dómara sem sátu í meirihluta Hæstaréttar í málinu um að hafa framið dómsmorð á Baldri en hann var sakfelldur fyrir innherjasvik með dómi Hæstaréttar í máli nr. 279/2011.
Jón Steinar var sýknaður, bæði í héraðsdómi og í Landsrétti, en Benedikt sendi inn málskotsbeiðni til Hæstaréttar þar sem hann fór fram á leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar.
Í málskotsbeiðninni kemur fram að Benedikt telji að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, meðal annars sökum þess að það varði mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífsins sem séu stjórnarskrárvarin réttindi.

Þá hafi það sérstaka þýðingu að ummælin hafi beinst að dómstörfum Benedikts og að gagnaðilinn, Jón Steinar, sé fyrrverandi hæstaréttardómari og starfandi lögmaður. Ekki hafi áður reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti.
Auk þess telur Benedikt meðal annars að málsmeðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant vegna bréfaskipta og símtala Jóns Steinars við forseta Landsréttar, dómsformann málsins og skrifstofustjóra réttarins um skipun dómsins.
Í ákvörðun Hæstaréttar segir að líta verði svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitaefni varðandi frelsi lögmanna og annarra sérfróðra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki innan réttarvörslukerfisins, til að tjá sig opinberlga um embættisverk dómara. Því geti úrlausn málisins haft verulegt gildi umfram úrlausnir sem áður hafi gengið. Var áfrýjunarbeiðnin því tekin til greina.