Innlent

„Eins og hjarta höfuðborgarinnar sé uppfullt af fallegum skúrum“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Greinarhöfundur virðist mjög hrifinn af bárujárnshúsunum í Reykjavík.
Greinarhöfundur virðist mjög hrifinn af bárujárnshúsunum í Reykjavík. Getty/Arcaid-Universal Images Group

Bandaríski vefmiðillinn Bloomberg birti í gær ítarlega umfjöllun um bárujárnshús í Reykjavík. Í röð tísta um greinina nefnir greinarhöfundur fjórar staðreyndir um bárujárnshúsin sem hann telur vera sérstaklega merkilegar.

Greinin er hluti af greinaröð Bloomberg þar sem ákveðnar borgir eru teknar fyrir og ítarlega fjallað um hvers konar byggingar það eru sem einkenni viðkomandi borgir. Nú þegar er búið að fjalla um borgir á borð við Hanoi, Brussel, Aþenu, London og Berlín en nú er röðin komin að Íslandi.

„Fyrir þann sem heimsækir Reykjavík í fyrsta skipti, þá kemur hún á óvart. Það er ekki bara þessar miklu öfgar á milli birtustigs eftir árstíðum, hið ótrúlega umhleypingasama veðurfar, eða klettótt ásýnd Esjunnar sem gnæfir yfir öllu. Það eru líka byggingarnar“, skrifar Fergus O'Sullivan, höfundur greinarinnar, og þar á hann við bárujárnshúsin, sem einnig má finna um allt land.

Segir hann að líklega séu flestir gestir borgarinnar vanir því að sjá bárujárnið notað á iðnaðarhúsum eða bóndabæjum. Það geti því virst fyrir þeim sem gengur um bárujárnshúsin við Bergþórugötuna, og víðar, að miðborg Reykjavíkur sé uppfull af fallegum skúrum.

„Eins og hjarta höfuðborgarinnar sé uppfullt af fallegum skúrum,“ skrifar O' Sullivan.

Í greininni fer O'Sullivan yfir sögu bárujárnshúsana, hvernig það hafi komið til að bárujárnið hafi borist til Íslands, í skiptum fyrir sauðfé. Þá nefnir hann einnig að Íslendingum hafi tekist, með tilkomu bárujárnshúsanna, að meðtaka nýjar leiðir til þess að byggja hýbýli, án þess að glata ákveðnum sérkennum og sjarma sem fyrir var.

Í röð tísta um greinina segir O'Sullivan frá því að það sem honum hafi fundist merkilegast við að skrifa greinina sé fjórþætt. Í fyrsta lagi að efri stéttin hér á landi hafi flutt inn þessi hús hingað til lands í pökkum. Í öðru lagi að bárujárnið hafi meðal annars slegið í gegn sem vernd fyrir rigningu sem féll lárétt til jarðar, í þriðja lagi að svalirnar hafi yfirleitt snúið í norður frá sólu og þannig virkað sem eins konar ísskápur til þess að kæla matvöru og í síðasta lagi að Íslendingar séu greinilega mjög hrifnir af steinsteypum húsum.

Greinina má lesa í heild sinni hér, og tíst greinarhöfundar hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×