Körfubolti

Fimm NBA leikmenn fóru og hittu páfann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frans páfi tók á móti leikmönnunum í Vatíkaninu í Róm.
Frans páfi tók á móti leikmönnunum í Vatíkaninu í Róm. EPA-EFE/VINCENZO PINTO / POOL

NBA-deildin heldur áfram að halda sér inn í umræðunni um félagslegt réttlæti í heiminum og nokkrir fulltrúar hennar hafa nú leitað til páfans í Róm.

Leikmenn NBA-deildarinnar í körfubolta hafa verið mjög virkir í jafnréttisbaráttunni í Bandaríkjunum á árinu og fóru meðal annars í verkfall um tíma í sumar til að þrýsta á breytingar.

Nú síðast tóku fimm leikmenn í NBA-deildinni upp á því að heimsækja Frans páfa í Vatíkanið í Róm. Leikmennirnir ræddu við páfann um jöfnuð og réttlæti fyrir alla.

Leikmennirnir sem fengu þann heiður að hitta páfann í gær voru þeir Anthony Tolliver, Kyle Korver, Sterling Brown, Jonathan Isaac og Marco Belinelli.

„Fundurinn í dag var ótrúleg lífsreynsla,“ sagði kraftframherjinn Anthony Tolliver sem spilar með liði Memphis Grizzlies.

„Með blessun og stuðningi páfans þá erum við spenntir fyrir því að byrja næsta tímabil endurnærðir fyrir það að halda áfram að presa á breytingar og pressa á það að fá samfélögin okkar til að vinna betur saman,“ sagði Tolliver í tilkynningu frá leikmannasamtökum NBA deildarinnar.

Michele Roberts, framkvæmdastýra leikmannasamtaka NBA deildarinnar, NBAPA, var líka með í för og hún sagði mikilvægt að fá raddir leikmannanna viðurkenndar með þessum hætti.

„Þarna var einn áhrifamesti leiðtogi heimsins sem vildi ræða við þá og það sýnir aðeins áhrifin sem leikmenn okkar hafa,“ sagði Roberts

„Ég er mjög hrifin af því að sjá það hversu leikmenn okkar eru staðfastir í því að þjónusta og styðja við samfélagið okkar,“ sagði Roberts.

Hér fyrir neðan má sjá myndband frá heimsókninni í gær.

Klippa: NBA leikmenn heimsóttu páfann
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×