Skoðun

Fleiri pláss, minna stress

Diljá Ámundadóttir Zoega skrifar

Í leikskóla er gleði og gaman fúm fúm fúm! Í dag vorum við í Skóla- og frístundaráði í Reykjavík að samþykkja einhljóða að fjölga plássum um allt að 70 fyrir börn frá 12 mánaða aldri í þremur leikskólum borgarinnar: Dalskóla í Úlfarsárdal, Nes/Bakka í Staðahverfi og Blásölum í Seláshverfi. Allir foreldrar í Reykjavík sem vantar leikskólapláss geta sótt um í þessum leikskólum.

Við samþykktum líka nýjan leikskóla í Safamýri fyrir 85-90 börn frá 12 mánaða aldri og upp úr, sem á að taka til starfa næsta haust. Fyrr í mánuðinum var svo samþykkt að kaupa hús við Kleppsveg og breyta í leikskóla og fjölga þannig leikskólaplássum sem vantar svo í Laugardalinn.

Brúum bilið hefur verið mitt hjartans mál í skóla-og frístundaráði. Að einfalda líf fólks með því að fleiri foreldrar geti fengið pláss fyrr á leikskólum borgarinnar. Hjartað mitt segir að allir væntanlegir leikskólar eigi að vera tilbúnir strax á morgun og ekkert foreldri eigi að þurfa að vera stressað yfir því hvar barnið þeirra verður þegar fæðingarorlofi lýkur. Lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði og fjölgun leikskóla í borginni gerir þann draum minn vonandi nær veruleikanum.

Höfundur er fulltrúi Viðreisnar í Skóla og frístundaráði í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×