Körfubolti

Snemmbúin jólagjöf fyrir stuðningsmenn Lakers: Davis framlengir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Davis varð NBA-meistari í fyrsta sinn í haust.
Anthony Davis varð NBA-meistari í fyrsta sinn í haust. getty/Douglas P. DeFelice

Anthony Davis mun skrifa undir fimm ára samning við Los Angeles Lakers. Hann átti stóran þátt í að liðið varð NBA-meistari á síðasta tímabili. 

Þessar fréttir koma í kjölfarið á fréttunum um að LeBron James hafi framlengt samning sinn við Lakers um tvö ár. Lakers heldur því báðum stórstjörnum síðan a.m.k. til 2023.

Alltaf var gert ráð fyrir því að Davis yrði áfram í herbúðum Lakers; eina spurningin var hversu langan samning hann myndi gera. Á endanum samþykkti hann fimm ára samning Lakers sem færir honum 190 milljónir Bandaríkjadala.

Davis, sem er 27 ára, gekk í raðir Lakers fyrir síðasta tímabil en hann kom til félagsins í skiptum frá New Orleans Pelicans.

Á síðasta tímabili var Davis með 26,1 stig, 9,3 fráköst, 3,2 stoðsendingar, 2,3 varin skot og 1,5 stolna bolta að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 27,7 stig, 9,7 fráköst, 3,5 stoðsendingar, 1,4 varin skot og 1,2 stolna bolta að meðaltali í leik. Davis var valinn í fyrsta úrvalslið NBA-deildarinnar og var í 2. sæti í kjörinu á varnarmanni ársins.

Auk þess að endursemja við Davis og LeBron hefur Lakers fengið þá Dennis Schröder, Marc Gasol og Montrezl Harrell, Wesley Matthews og Alfonzo McKinnie eftir að síðasta tímabili lauk. Dwight Howard, Rajon Rondo, JaVale McGee, Quinn Cook og Danny Green eru hins vegar horfnir á braut.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×