Fótbolti

Meiddist í þýðingar­litlum leik í Dan­mörku og gæti nú misst af leik helgarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jota hefur verið frábær það sem af er tímabili.
Jota hefur verið frábær það sem af er tímabili. vísir/Getty

Diogo Jota hefur byrjað tímabilið frábærlega með Englandsmeisturum Liverpool en hann gæti nú misst af leik liðsins um helgina vegna meiðsla á hné.

Jota spilaði nær allan leikinn í 1-1 jafnteflinu gegn Midtjylland í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, hefur gagnrýnt leikjaálag ensku stórliðanna undanfarið en spilaði þó nokkrum af sínum sterkustu mönnum í leik vikunnar.

Leikurinn skipti Liverpool engu máli hvað varðar stöðu í riðlinum en liðið var þegar búið að tryggja sér toppsætið og þar með sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Undir lok leiks gegn Midtjylland haltraði Jota svo af velli vegna meiðsla á hné og nú er óvíst að hann nái leik Liverpool gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni á morgun. 

Staðarblaðið Liverpool Echo telur það öruggt að Portúgalinn verði ekki með. Vefsíðan Physio Room – sem heldur utan um öll meiðsli leikmanna í ensku úrvalsdeildinni – telur hins vegar um 50 prósent líkur að vængmaðurinn knái verði með Liverpool á morgun.

Jota er sem stendur einn níu leikmanna sem er annað hvort tæpur eða meiddur á þessari stundu. Markvörðurinn Alisson hefur misst af síðustu þremur leikjum en það hefur ekki komið að sök þar sem Caoimhín Kelleher hefur staðið sig með prýði. Brasinn gæti snúið aftur í markið á morgun.

Alex Oxlade-Chamberlain er byrjaður að æfa að nýju eftir meiðsli á hné og gæti hann jafnvel verið í hóp á morgun. Aðrir leikmenn eru meiddir til lengri tíma og þar má nefna Thiago Alcântara, Virgil van Dijk, James Milner, Xerdan Shaqiri, Joe Gomez og Konstantinos Tsimikas.

Liverpool er sem stendur í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig að loknum 11 umferðum. Tottenham Hotspur er á toppi deildarinnar með jafn mörg stig en betri markatölu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×