Þetta segir Karl Gústaf í árlegum sjónvarpsþætti, Árið með konungsfjölskyldunni, en brot út þættinum hefur nú verið birt í sænskum fjölmiðlum.
„Ég tel að okkur hafi mistekist. Við höfum séð mikinn fjölda láta lífið og það er skelfilegt. Við þjáumst öll vegna þessa,“ segir konungurinn í þættinum.
Nærri átta þúsund látnir
Framan af faraldrinum fóru Svíar nokkuð aðra leið en flestar aðrar þjóðir í kring og reyndu að halda samfélaginu eins og opnu og hægt var. Var ekki gripið til jafn harðra aðgerða og flestar nágrannaþjóðir ákváðu að gera.
Alls eru skráð kórónuveirusmit í landinu nú um 350 þúsund frá upphafi faraldursins og dauðsföllin tæplega átta þúsund.
Ekki haft tækifæri til að kveðja sína nánustu
Konungurinn segir marga hafa látist af völdum Covid-19 í Svíþjóð og ljóst að margir hafi ekki haft tækifæri til að kveðja sína nánustu. Hann segist harma það mjög.
„Maður hugsar um alla þá í fjölskyldum sem hafa lent í því að geta ekki kvatt aðra í fjölskyldu sinni. Ég tel þetta vera þunga reynslu sem valdi áfalli, að geta ekki kvatt almennilega.“
Aðspurður um hvort að hann sé sjálfur hræddur um að smitast af kórónuveirunni segir konungur: „Að undanförnu hefur þetta verið áþreifanlegra og þetta hefur færst nær og nær manni. Þetta er ekki eitthvað sem maður óskar sér.“
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Karl Filippus prins, sonur konungs, og Sofia prinsessa hafi greinst með Covid-19.