Sport

Portúgalinn rann á stærðfræðisvellinu, frábær spilamennska Van Duijvenbode og óvænt úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dirk van Duijvenbode þykir líklegur til afreka á HM.
Dirk van Duijvenbode þykir líklegur til afreka á HM. getty/Luke Walker

Englendingurinn Mervyn King og Hollendingarnir Dirk van Duijvenbode og Vincent van der Voort tryggðu sér í dag sæti í sextán manna úrslitum á heimsmeistaramótinu í pílukasti.

Í fyrsta leik dagsins sigraði King Portúgalann José de Sousa, 4-0. Eins og stundum lenti Sousa í vandræðum með hugarreikninginn. Hann missti þá af tækifæri til að jafna í 1-1 í fjórða setti.

King og Sousa léku vel en þeir voru báðir með yfir 103 að meðaltali. Raunar var meðaltalið hjá Sousa aðeins hærra, 103,62 gegn 103,47.

Van Duijvenbode sýndi frábæra takta í öðrum leik dagsins þar sem hann vann Adam Hunt, 4-0. Sá hollenski var með 104,9 í meðaltal sem er það fjórða hæsta til þessa á HM.

Van Duijvenbode átti meðal annars glæsilega 170 úttekt þegar hann komst í 2-0 í fyrsta settinu.

Í þriðja leik dagsins gerði Van Der Voort sér svo lítið fyrir og sigraði Nathan Aspinall, 4-2. Sá síðarnefndi er í 6. sæti heimslistans og komst í undanúrslit á HM 2019 og 2020.

Van Der Voort byrjaði betur og vann tvö fyrstu settin með flottri spilamennsku. Aspinall svaraði með því að vinna næstu tvö sett og staðan því jöfn, 2-2.

Van Der Voort náði sér þá aftur á strik, vann næstu tvö sett og tryggði sér óvæntan sigur, 4-2. Hann hefur ekki komist svona langt á HM síðan 2015. Þrír Hollendingar eru komnir í sextán manna úrslit á HM: Van Der Voort, Van Duijvenbode og Michael van Gerwen.

Í seinni þremur leikjum dagsins mætast Gary Anderson og Mensur Suljovic, Gerwyn Price og Brendan Dolan og Glen Durrant og Danny Baggish.

Bein útsending frá seinni hluta HM í dag hefst klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport 3.


HM í pílukasti er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. HM í pílukasti er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×