Lögreglumenn saka samninganefnd ríkisins um að tefja fyrir í samningaviðræðum um nýjan kjarasamning. Lögreglumenn hafa verið samningslausir í ár og sér ekki fyrir endann á viðræðum.
„Við erum bara enn þá í viðræðum. Þær ganga frekar hægt. Að okkar mati eru þær frekar einhæfar. Þetta snýst einhvern veginn meira um okkur heldur en að tveir aðilar nái saman,“ segir Baldur Ólafsson, lögreglumaður sem einnig á sæti í stjórn Landssambands lögreglumanna.

Lögreglumenn hafa fá tækifæri til þess að bregðast við því enginn er verkfallsrétturinn.
„Það hlýtur að vera út af einhverri ástæðu. Að við séum þjóðfélagslega mikilvæg,“ segir Baldur.
Lögreglumenn fagna umbun til heilbrigðisstarfsfólks í framlínu sem þeir segja að eigi skilið
Lögreglumenn fagna þeirri ákvörðun stjórnvalda um að verja milljarði í launauppbót til heilbrigðisstarfsfólks í framlínu vegna kórónuveirunnar, sem þeir segja að eigi það fullkomlega skilið.

Lögreglumenn sitja og bíða þeir eftir að laun þeirra verði leiðrétt
„Við erum að fara fram á að launataflan okkar verði leiðrétt og sett á þann stað þar sem hún á að vera og að klárað sé að semja um þá hluti sem að í rauninni er búið að semja um og hafa ekki verið kláraðir,“ segir Helgi Már Tulinius, lögreglumaður.
Helgi segir óþreyju og pirrings farið að gæta meðal lögreglumanna.
„Menn virðast orðnir langþreyttir á því að það sé ekki samið og það sé ekki virt viðlits hvers eðlis starfið er sem að við erum að fást við,“ segir Helgi.