Handbolti

Afturelding fær næstmarkahæsta manninn úr Grillinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, hefur náð í leikmann frá gamla liðinu sínu, Haukum.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, hefur náð í leikmann frá gamla liðinu sínu, Haukum. vísir/hulda margrét

Afturelding hefur fengið Guðmund Braga Ástþórsson á láni frá Haukum. Hann leikur með Mosfellingum út tímabilið að því gefnu að Haukar kalli hann ekki til baka.

Handbolti.is greindi fyrst frá félagaskiptunum. Aftureldingu veitir ekki af liðsstyrk enda hefur meiðsladraugurinn gert liðinu ansi erfitt fyrir í vetur.

Guðmundur Bragi hefur farið mikinn með ungmennaliði Hauka í Grill 66-deildinni á tímabilinu. Hann hefur skorað 65 mörk í sex leikjum og er næstmarkahæstur í deildinni á eftir Kristjáni Orra Jóhannssyni, leikmanni Kríu, sem hefur skorað 74 mörk í sjö leikjum.

Guðmundur Bragi skoraði tólf mörk þegar Haukar U unnu Fram U, 26-22, á Ásvöllum í gær. Haukar U eru í 6. sæti Grill 66-deildarinnar með sex stig eftir sex leiki.

Næsti leikur Aftureldingar er einmitt gegn Haukum, í Mosfellsbænum, á miðvikudaginn.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×