Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Haukar 24-30 | Haukar á toppnum

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Haukar - ÍBV Olís deild karla vetur 2020 - 2021 handbolti Hsí
Haukar - ÍBV Olís deild karla vetur 2020 - 2021 handbolti Hsí Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Haukar unnu góðan sigur á Aftureldingu, er liðin mættust í 7. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Haukar sem voru tveimur mörku undir þegar flautað var til hálfleiks unnu leikinn 24-30.

Fyrri hálfleikur byrjaði af krafti Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Aftureldingar skoraði fyrsta mark leiksins og eftir það kom kafli þar sem markmenn beggja liða voru í aðalhlutverki.

Það tók Hauka sex mínútur að koma boltanum í netið. Mikið jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en Afturelding leiddi með einu marki bróðurpart fyrri hálfleiks. Þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks var staðan 15-13 heimamönnum í vil.

Orri Freyr Þorkelsson leikmaður Hauka skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks. Liðin voru nokkuð jöfn fyrstu mínútur seinni hálfleiks en þegar um tíu mínútur voru liðnar gáfu Haukarnir heldur betur í og komu sér 5 mörkum yfir. Haukamenn stilltu upp 5-1 vörn sem Afturelding réði illa við og skilaði það hraðaupphlaupum Hauka megin og tæknifeilum hjá heimamönnum. Lokatölur leiksins 24-30.

Með þessum úrslitum hirða Haukar efsta sætið af Aftureldingu, allaveganna í bili.

Af hverju unnu Haukar?

Spilamennska Hauka í seinni hálfleik skilaði þessum sigri. Eftir að hafa verið undir nánast allan fyrri hálfleikinn komu þeir öflugir til seinni hálfleiks. Það var klókt af Aroni, þjálfara Hauka að stilla upp 5-1 vörn sem Afturelding átti erfitt með að leysa.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Aftureldingu var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson atkvæðamestur með 7 mörk. Blær Hinriksson var með 6 mörk og Þorsteinn Leó með 5. Arnór Freyr Stefánsson lokaði rammanum í fyrri hálfleik og var með 50% markvörslu í hálfleik en endaði að klukka 15 bolta í 34% markvörslu.

Hjá Haukunum voru það Orri Freyr Þorkelsson og Geir Guðmundsson með 6 mörk hvor. Brynjólfur Snær og Tjörvi Þorgeirsson voru með 5 mörk hvor. Björgvin Páll Gústavsson hrökk í gang í seinni hálfleik og varði 13 skot, 39% markvarsla.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn hjá Aftureldingu gekk illa í seinni hálfleik sem varð þeim að falli. Þeir fundu enginn svör við 5-1 vörn Hauka og skrifast það líka á ákveðið reynsluleysi enda ungt lið sem er að glíma við mikið af meiðslum.

Hvað er framundan?

Sunnudaginn 7. febrúar kl. 15:30 taka Haukar á móti Fram á Ásvöllum.

Mánudaginn 8. febrúar kl. 19:30 tekur Afturelding á móti FH í Varmá.

Gunnar Magnússon: Það vantaði smá meiri klókindi

,,Ég er ótrúlega svekktur, ég hefði viljað fá einhvað út úr þessum leik. Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og var virkilega ánægður með fyrstu 30 og fannst við hafa góð tök en svo í byrjun seinni fórum við framúr okkur. Strákarnir ætluðu að gefa allt í þetta og berjast fyrir öllu og það vantaði smá meiri klókindi,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar eftir tap á móti Haukum í kvöld.

Afturelding byrjaði leikinn vel og leiddu með 1-2 mörkum nánast allan fyrri hálfleikinn, þegar flautað var til hálfleiks leiddu þeir með tveimur mörkum, 15-13.

,,Við fáum klaufalega brottrekstra í byrjun seinni og erum fyrst 11. mínúturnar um sex mínútur útaf. Við missum þá fram úr okkur. Fyrstu 10-15 mínúturnar í seinni hálfleik fer leikurinn og svo komum við til baka og náum að halda í þá en það er þessi kafli í byrjun seinni sem ég er svekktur yfir og kannski smá reynsluleysi í þessum brotum hjá okkur.“

Afturelding átti erfitt með að finna sig sóknarlega í seinni hálfleik og sérstaklega að finna svör við 5-1 vörn Hauka. Einnig voru klaufalegir brottrekstrar sem settu stórt strik í reikninginn.

,,Við lentum í basli sóknarlega í byrjun, við vorum mikið einum færri og það er erfitt þegar menn eru hræddir við að það sé enginn í markinu. Við náum ekki inn neinni vörn, við vorum bara einum færri allan tímann og náðum ekki að spila okkar leik. Við náum því síðustu fimmtán og náum að koma okkur aftur í skipulagið og koma okkur 6 á 6 og þá höfðum við betri stýringu fannst mér.“

,,Það er þessi kafli sem var okkur dýr og mikið að fá óþarfa tvær mínútur sem gerði okkur þetta erfitt en ég verð að segja í heildina var margt mjög gott í mínum leik hjá strákunum, margt mjög jákvætt sem við getum byggt. Margir eru að stíga upp í kvöld og ég er ánægður með margt hjá okkur en er að sjálfsögðu svekktur með tapið.“

Nú er stutt á milli leikja í deildinni og tekur Afturelding á móti FH í næstu umferð.

,,Við höldum áfram að bæta okkur, við erum með marga flotta unga stráka og þeir læra af þessu og við mætum sterkari í næsta leik, tökum lærdóminn og höldum áfram. Það er nóg eftir, þó það sé leiðinlegt, við erum búnir að vera á toppnum í allan vetur og það er leiðinlegt að missa topp sætið núna í febrúar,“ sagði Gunnar að lokum.

Aron: Við þurfum að vera einbeittir frá byrjun leiks, ekki bara í seinni hálfleik

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka í handbolta, var að vonum sáttur með frammistöðu sinna manna þegar þeir unnu Aftureldingu í kvöld, 24-30.

,,Ég er í fyrsta lagi ánægður með þessa tvo punkta. Að koma hér í Varmá og vinna topp liðið eftir erfiðan fyrri hálfleik, fannst mér við spila góðan varnarleik í seinni hálfleik. Björgvin kom vel upp í markinu, þeir áttu erfitt með að leysa þessa 5-1 vörn og við fengum hraðaupphlaup út frá því og sóknarleikurinn var beittari fyrir vikið,“ sagði Aron í leikslok.

Haukar voru 1-2 mörkum undir nánast allan fyrri hálfleikinn og fóru tveimur mörkum undir í hálfleik.

,,Mér fannst í fyrri hálfleik vanta aðeins meiri einbeitingu yfir línuna. Við vorum að klikka á mjög góðum marktækifærum. Arnór var að verja vel. Það var samskiptaleysi í varnarleiknum, klaufalegir í skiptingum og þeir náðu að spila langar sóknir.“

,,Samt sem áður var það samskiptaleysi og við náðum að breyta því með því að fara í 5-1 og þá fengum við meiri fókus og meiri hraða í leikinn.“

Haukar taka á móti Fram í næstu umferð ,,Frammararnir áttu virkilega sterkan sigur í síðustu umferð á móti Val og eru að sýna að þeir eru til alls líklegir. Við þurfum að vera einbeittir frá byrjun leiks, ekki bara í seinni hálfleik,“ sagði Aron að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira