Körfubolti

Fyrstu systurnar með yfir tíu stig í sama A-landsleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði sautján stig á móti Grikkjum og gaf fimm stoðsendingar að auki þar af tvær á tvíburasystur sína Bríeti.
Sara Rún Hinriksdóttir skoraði sautján stig á móti Grikkjum og gaf fimm stoðsendingar að auki þar af tvær á tvíburasystur sína Bríeti. fiba.basketball

Sara Rún og Bríet Sif Hinriksdætur voru báðar í hópi þriggja stigahæstu leikmanna íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta á móti Grikklandi í gær.

Tvíburasysturnar úr Keflavík afrekuðu það jafnframt í gærkvöldi sem engar systur hafa náð áður í sögu A-landsliðs kvenna í körfubolta.

Íslensku stelpurnar stóðu í Grikkjum í fyrstu fimmtán mínútur leiksins en svo fór að halla undan fæti og í lokin munaði 37 stigum á liðunum.

Sara Rún Hinriksdóttir var stighæst í íslenska liðinu með sautján stig en Bríet Sif var þriðja stigahæst með ellefu stig.

Bríet Sif þurfti bara rétt rúmar fjórtán mínútur til að skora þessi ellefu stig en hún setti niður þrjú þriggja stiga skot í leiknum.

Sara Rún var að brjóta tíu stiga múrinn í áttunda sinn með A-landsliðinu en þetta var í fyrsta sinn sem Bríet Sif skorar svona mikið í landsleik. Sara hjálpaði systur sinni við að ná þessu með því að eiga á hana tvær stoðsendingar í leiknum.

Það hafa fleiri systur spilað með íslenska landsliðinu í sama landsleik en þetta er í fyrsta sinn sem systur skora báðar tíu stig eða meira í sama leik.

Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur höfðu báðar náð að skora tíu stig í landsleik en þó aldrei í sama landsleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×