Erlent

Rush Limbaugh látinn 70 ára að aldri

Eiður Þór Árnason skrifar
Rush Limbaugh við orðuafhendingu í fyrra þar sem hann fékk frelsisorðu Bandaríkjaforseta. 
Rush Limbaugh við orðuafhendingu í fyrra þar sem hann fékk frelsisorðu Bandaríkjaforseta.  Getty/Jonathan Newton

Hinn umdeildi bandaríski útvarpsmaður Rush Limbaugh er látinn, 70 ára að aldri. Eiginkona hans Kathryn Adams greindi frá andlátinu í vinsælum útvarpsþætti hans í dag en fjölmiðlamaðurinn hafði glímt við krabbamein í lungum.

Limbaugh var stórveldi í útvarpssenu bandarískra íhaldsmanna og naut mikillar hylli í röðum repúblikana. Þrír forsetar Bandaríkjanna mættu í sett The Rush Limbaugh Show í rúmlega þriggja áratuga sögu þáttarins og töldu margir þeirra mikilvægt að njóta opinbers stuðnings þáttastjórnandans.

Limbaugh var meðal annars þekktur fyrir umdeildar og harðskeyttar skoðanir sínar og var um leið gagnrýndur fyrir málflutning sem var meðal annars sagður litast af kynþáttahyggju, hómófóbíu, kynjamismunun og afneitun á loftslagsvísindum.

Útvarpsmaðurinn var dyggur stuðningsmaður Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem veitti honum frelsisorðu forsetaembættisins í fyrra.

Tengdi gosið í Eyjafjallajökli við Obamacare

Rush Limbaugh fæddist þann 12. janúar árið 1951 í Missouri og byrjaði snemma að vinna í útvarpi en ferill hans tók fyrst á loft árið 1984 þegar The Rush Limbaugh Show hóf göngu sína á KFBK-útvarpsstöðinni í Kaliforníu.

Vinsældir þáttarins hófust fyrir alvöru þegar eftirlitsnefnd alríkisfjarskipta í Bandaríkjunum, FCC, afnam reglur sem kváðu á um að útvarpsstöðvar þyrftu að gæta jafnræðis í umfjöllun sinni um umdeild málefni.

Í kjölfarið hjálpuðu afdráttarlausar skoðanir Limbaugh að tryggja þætti hans dreifingu á hundruðum útvarpsstöðva um allt land. Hlustuðu um 27 milljónir manna vikulega á þátt hans í fyrra.

Ísland kom við sögu í þætti Limbaugh árið 2010 þegar hann full­yrti að eld­gos­ið í Eyja­fjalla­jökli hafi verið viðbrögð Guðs við því að Obamacare, heilbrigðisfrumvarp Barack Obama þáverandi Bandaríkjaforseta, hafi hlotið brautargengi á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×