RÚV greindi fyrst frá. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir niðurstöðuna í samtali við fréttastofu. Hún segir málið ekki hafa þótt líklegt til sakfellingar.
Kristján Gunnar var handtekinn á heimili sínu aðfararnótt aðfangadags 2019 en síðar sleppt. Hann var svo aftur handtekinn á jólanótt grunaður um frelsissviptingu, líkamsárás og kynferðisbrot gegn þremur konum. Réttargæslumaður brotaþola gagnrýndi verulega störf lögreglu og taldi að krefjast hefði átt gæsluvarðhalds strax eftir fyrri handtöku.
Kristján Gunnar var upphaflega úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald. Kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald í fjórar vikur var hins vegar hafnað bæði í héraðsdómi og Landsrétti. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði eftir því við Landsrétt að úrskurðurinn yrði ekki birtur opinberlega og vísaði til rannsóknarhagsmuna í málinu.
Lögregla lauk rannsókn sinni á málinu sumarið 2020 og fór málið á borð héraðssaksóknara. Nú tæpu ári síðar er niðurstaðan að fella málið niður. Katrín Hilmarsdóttir, saksóknari hjá héraðssaksóknara, segir meinta brotaþola geta kært ákvörðun um niðurfellingu málanna til ríkissaksóknara.
Fréttin hefur verið uppfærð.