Körfubolti

Kominn með 29 þriggja stiga körfur í síðustu þremur leikjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir áttu mjög góðan leik er Golden State Warriors vann stórsigur í nótt. Stephen Curry [t.v.] skoraði 42 stig á meðan Draymond Green var með tvöfalda þrennu.
Þessir tveir áttu mjög góðan leik er Golden State Warriors vann stórsigur í nótt. Stephen Curry [t.v.] skoraði 42 stig á meðan Draymond Green var með tvöfalda þrennu. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Stephen Curry hefur verið nær óstöðvandi í liði Golden State Warriors undanfarna þrjá leiki í NBA-deildinni í körfubolta. Hann hefur skorað 133 stig á þeim tíma, þar af hafa 87 komið eftir þriggja stiga skot.

Alls hefur Curry því sett niður 29 þriggja stiga körfur. 

Warriors eru á góðu skriði og hafa unnið þrjá leiki í röð. Liðið er í hörku baráttu við Memphis Grizzlies um 8. sæti Vesturdeildarinnar en átta lið fara í úrslitakeppnina. Sem stendur hefur Memphis unnið 27 leiki og tapað 26 á meðan Golden State hefur unnið 27 og tapað 28.

Það er deginum ljósara að ef liðið kemst í úrslitakeppnina verður það allt Curry að þakka. Hann varð á dögunum stigahæsti leikmaður í sögu félagsins og hefur ekki látið staðar numið þar.

Hann fór enn og aftur mikinn í nótt er Warriors pökkuðu Oklahoma City Thunder saman, lokatölur 147-109. Ásamt því að skora 42 stig gaf Curry átta stoðsendingar og tók sex fráköst.

Alls setti þessi magnaði leikmaður 11 þriggja stiga skot niður í leiknum og það sem meira er, hann spilaði aðeins 29 af 48 mínútunum sem voru í boði.

Klay Thompson, liðsfélagi Curry á metið yfir flestar þriggja stiga körfur í leik eða 14 talsins. Best á Curry 13 og hefði með fleiri spiluðum mínútum gegn OKC í nótt átt möguleika á að jafna, eða bæta metið.

Eftir leikinn var Curry spurður út í metið. Hann sagði að sjálfsögðu væri það markmiðið, hann vildi fá metið sitt aftur. Miðað við hversu vel hefur gengið hjá Curry undanfarið væri fráleitt að veðja gegn því að metið verði hans á nýjan leik innan tíðar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×