„Með þessum lagfæringum þarna er búið að taka af langhættulegasta staðinn á leiðinni upp að eldgosinu,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, en myndir af stígagerðinni voru sýndar í fréttum Stöðvar 2.

Hann vísar til endurbóta á gönguleiðinni um bratta brekku sem liggur upp frá Nátthagakrika við norðanvert Borgarfell og upp á Fagradalsfjall sunnan Geldingadala. Fyrir síðustu helgi var breiður stígur skorinn í neðri hluta brekkunnar með þægilegum gönguhalla og í gærkvöldi var svo lokið við að skera samskonar stíg í efri hluta brekkunnar, sem liggur um gil.

„Það hafa orðið meiðsl þarna og beinbrot jafnvel,“ sagði Fannar bæjarstjóri.
„Tvö og þrjú ökklabrot á dag, - eða mjög slæm slys, þannig séð. Þá er þetta bara slysavarnamál að koma þessu í lag,“ sagði Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Verkfræðistofunni Eflu, í viðtali á Stöð 2 fyrr í vikunni en hann hefur komið að endurbótum á gönguleiðinni.

Upphaflega var kaðall settur upp á erfiðasta hluta A-leiðarinnar til að hjálpa göngufólki að fara um mesta brattann. Leiðinni var síðar breytt og hún látin liggja um gil örlítið austar. Nýjasti stígurinn liggur einmitt um það gil og er hann það breiður að björgunarsveitarmenn gátu í gærkvöldi ekið jeppa um hann alla leið upp á fjallið.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða kostar gerð stíganna. Verkið annast landeigendur Hrauns, sem eru jarðvinnuverktakar.
Fjallað var um nýja stíginn og stöðuna á eldgosinu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2, sem sjá má hér:
Hér má sjá ítarlegra viðtal við bæjarstjórann: