Útlendingastofnun tekur fyrir að aðgerðin hafi verið á þeirra vegum og vísar öllu á aðallögfræðing lögreglunnar.
Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, mætti á staðinn í gær eftir að mennirnir höfðu verið handteknir. Þar ræddi hún við sjónarvotta um það sem þar hafði farið fram.
Lokkaðir á staðinn í skipulegri aðgerð
„Samkvæmt vitnum og þeim sem að þarna mættu þá voru þeir boðaðir á skrifstofu Útlendingastofnunar í Bæjarhrauni í Hafnarfirði til að nálgast bólusetningarskírteinin sín. En þegar þeir síðan mæta á staðinn þá verður þeim ljóst frekar fljótt að það er nú ekki alveg allt með feldu og gera tilraun til að yfirgefa bygginguna,“ segir Sema.
„Þá er þeim í raun meinað að yfirgefa staðinn af starfsmönnum Útlendingastofnunar. Og stuttu seinna er lögregla mætt á staðinn.“
Hún segist hafa talið allavega fjóra merkta lögreglubíla, sjúkrabíl og slökkviliðsbíl og þá var sérsveitin mætt á ómerktum bílum.
„Þannig að augljóslega er þetta mjög skipulögð aðgerð af hálfu Útlendingastofnunar. Í rauninni að lokka drengina á staðinn, plata þá til að mæta einungis til að tilkynna þeim að þar sem þeir eru núna bólusettir þá væri hægt að brottvísa þeim til Grikklands og þeir eigi að fara með lögreglunni án tafar,“ segir Sema.
Mennirnir hafi bólusett sig í góðri trú og gert það til að vernda sig og aðra fyrir Covid-19. Þeir hafi ekki vitað að það ætti að vísa þeim úr landi um leið og þeir hefðu verið bólusettir og segjast ekki hafa fengið neinar fréttir af brottvísuninni fyrr en þeir mættu á staðinn.
Lögreglan hafi eytt upptökum
Erla segir að mennirnir hafi skiljanlega verið ósáttir með málið en þegar þeir sýndu lögreglu mótspyrnu var ráðist á þá af hópi lögreglumanna, eins og sést af myndum sem teknar voru á svæðinu í gær.
Lögregla hafi meðal annars stuðað þá með rafbyssu til að yfirbuga þá. Þeir voru sendir úr landi til Grikklands í morgun, með viðkomu í Svíþjóð.
Sema segir að aðgerðir lögreglu í gær verði kærðar til nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) því vinnubrögð lögreglumanna á svæðinu hafi verið með öllu óboðleg:
„Einn aðili tók myndir og myndbönd í gegn um hurðina af því sem þarna var að eiga sér stað. Sá aðili hefur sagt að lögregla hafi tekið af honum símann og eytt þeim gögnum sem hann tók upp. Og virðist þannig hafa verið að eyða sönnunargögnum um sitt framferði þarna inni.
Það er náttúrulega eitthvað sem er ekki vitað til að lögregla hafi heimild til að gera. Og hefði sennilega ekki gert ef þarna hefðu verið aðrir en flóttamenn,“ segir Sema.
Útlendingastofnun neitar að tjá sig
Þá segir hún einnig að leitað verði til viðeigandi aðila til að tilkynna framferði Útlendingastofnunar í málinu. Verið sé að skoða í hvaða farveg sé best að fara með það mál.
Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, neitaði að koma í viðtal um málið þegar fréttastofa óskaði eftir því.
Spurð hvort mennirnir hafi verið boðaðir af Útlendingastofnun til að sækja bólusetningarvottorð sitt neitar hún því. Hún bendir á að lögreglan sé einnig staðsett í húsnæðinu sem um ræðir og segir að aðgerðin hafi verið alfarið á vegum lögreglunnar.

Þegar hún er spurð hvort hún geti þá fullyrt að enginn starfsmaður stofnunarinnar hafi tekið þátt í undirbúningi aðgerðarinnar eða atvikinu sjálfu segir hún að stofnunin ætli ekki að tjá sig um málið.
Hvorki náðist í Helga Valberg, aðallögfræðing lögreglunnar, sem Þórhildur vísaði á né Guðbrand Guðbrandsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá stoðdeild sem sér um að framkvæma brottvísanir, við gerð fréttarinnar.