Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í júní eða um helmingur brottfara.
Enn er nokkuð í að fjöldinn komist í sama horf og fyrir heimsfaraldurinn en brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 195 þúsund í júní 2019. Ferðamálastofa gerir ráð fyrir að um 890 þúsund erlendir ferðamenn muni sækja landið heim í ár og á næsta ári verði fjöldinn svipaður og hér var 2019, eða um 1.950 þúsund.
Frá áramótum hafa tæplega 75 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi sem er um 78% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega tæplega 342 þúsund.

Langflestar brottfarir í júní má rekja til Bandaríkjamanna eða um helming. Þar á eftir fylgja brottfarir Pólverja (8,6% af heild), Þjóðverja (7,5% af heild), Breta (5,3% af heild) og Frakka (4,2% af heild). Samtals voru brottfarir fimm stærstu þjóðerna 76%.
Brottfarir Íslendinga í júní voru um 13.500 talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær ríflega fimm þúsund. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 32.400 eða 65,8% færri en á sama tímabili í fyrra.