Innlent

Flug­vél Icelandair snúið við frá Reykja­víkur­flug­velli: Far­þegar biðu í tæpar tvær klukku­stundir

Árni Sæberg skrifar
Flugvélin er af gerðinni Boeing 737 MAX.
Flugvélin er af gerðinni Boeing 737 MAX. Vísir/Kristján Már

Flugvél Icelandair á leið frá Akureyri til Reykjavíkur gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli sökum sviptivindar í kvöld. Vélinni var beint til Keflavíkur þar sem við tók glundroði og löng bið.

Farþegi um borð í flugvélinni, segir í samtali við Vísi að sex flug hafi verið á áætlun Icelandair frá Akureyri til Reykjavíkur í dag en að þeim hafi verið fækkað í fjögur. Þá hafi farþegum tveggja áætlaðra flugferða með minni flugvélum verið flogið með einni stærri Boeing 737 MAX flugvél.

Hann telur að minni flugvél hefði hæglega getað lent á Reykjavíkurflugvelli og því finnist honum ákvörðunin sérkennileg.

Hann segir að sér og öðrum farþegum hafi verið nokkuð brugðið þegar hreyflar vélarinnar voru settir í botn og tekið var á loft aftur.

Upptöku af því má sjá hér að neðan.

Biðu í einn og hálfan klukkutíma á flugbrautinni

Farþeginn segir að við komuna til Keflavíkurflugvallar hafi löng bið beðið þar sem erfitt hafi reynst að taka á móti innanlandsflugi. Farþegum hafi ekki verið hleypt frá borði fyrr en minnst einni og hálfri klukkustund eftir lendingu.

Þá hafi tekið við glundroði í flugstöðinni þar sem sumir farþegar hafi viljað fá farangur sinn afhentan þar til að ná tengiflugi. Hann segist hafa skynjað nokkurn pirring meðal farþega vélarinnar.

Sjálfur segist hann sáttur með að vera kominn heim en að honum finnist samt sem áður skrýtið að Icelandair hafi ákveðið að nota Boeing 737 MAX í flugið.

Hér að neðan má sjá hvernig stefnu flugvélarinnar var breytt.

Flugvélinni var flogið til Keflavíkur í stað Reykjavíkur.Skjáskot/Flightradar24



Fleiri fréttir

Sjá meira


×