Innherji

Hátt hlutfall fjölgunar starfa í ferðaþjónustu byggt á ráðningarstyrkjum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gögn um vinnumarkaðinn í ferðaþjónustu gefa til kynna að hann sé mjög sveigjanlegur.
Gögn um vinnumarkaðinn í ferðaþjónustu gefa til kynna að hann sé mjög sveigjanlegur. Vísir/Vilhelm

Mikil fjölgun starfa hefur orðið í íslenskri ferðaþjónustu undanfarna mánuði en mjög hátt hlutfall er byggt á ráðningarstyrkjum.

Á átján mánaða tímabili frá því í mars 2020 til loka september 2021 tekur fjöldi starfandi innan ferðaþjónustunnar 45 prósent dýfu. Fjöldi starfa í greininni var 25 þúsund, bæði í upphafi og í lok tímabilsins. 

Gula línan, sem gefur til kynna hlutfall lausra starfa í ferðaþjónustu, tekur skörpum breytingum á tímabilinu eins og sjá má.

Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu um ferðaþjónustuna sem Ferðamálastofa gerir með KPMG og kynnt var fyrr í dag. Þar er á grundvelli spálíkana áætlað um afkomu ársins 2021 og hver staðan er nú um áramótin. Þá er farið er yfir rekstur ferðaþjónustunnar á árinu 2020 og efnahag í árslok 2020.

Á milli fyrsta og þriðja ársfjórðungs 2021 urðu til rúmlega 11 þúsund störf í ferðaþjónustu en á sama tímabili eru um þrjú þúsund ráðninga inn í greinina í gegnum úrræði stjórnvalda um ráðningarstyrki og átakið Hefjum störf. Samkvæmt Hagstofunni var fjöldi launagreiðenda í október 2021 farinn að nálgast sambærilegan fjölda og í október 2019.

Fjöldi launagreiðenda í október 2021 er farinn að nálgast sambærilegan fjölda og í október 2019, kemur fram í skýrslunni.

Um þriðjungur starfandi eru erlendir ríkisborgarar

Hlutfall erlendra ríkisborgara af fjölda starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar var 38 prósent í september 2021, samanborið við 32 prósent á sama tíma árið 2020. Hlutfallið hefur ekki verið hærra á síðustu árum. 

Þegar umfang ferðaþjónustunnar var sem mest í fjölda ferðamanna talið árið 2018 nam fjöldi starfandi tæplega 33 þúsund. Nái ferðaþjónustan sama umfangi í fjölda starfa vantar átta þúsund starfsmenn til starfa í greininni. 

Nái ferðaþjónustan sama umfangi í fjölda starfa vantar átta þúsund starfsmenn til starfa í greininni.

Á sama tíma er fjöldi atvinnulausra hratt að nálgast sambærilegan fjölda og fyrir faraldurinn eða um 10 þúsund. Ef 10 þúsund atvinnulausra endurspeglar langtíma jafnvægi í fjölda atvinnulausra draga skýrsluhöfundar þá ályktun að frekari fjölgun starfandi í ferðaþjónustu þurfi að koma erlendis frá.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×