Ungmennin voru á aldrinum sex til sextán ára þegar hamfarirnar í Fukushima riðu yfir. Þau segjast öll hafa þróað með sér krabbamein vegna geislamengunar. Þá segir lögmaður ungmennanna að þau hafi öll þurft að gangast undir skurðaðgerð til að fjarlægja hluta skjaldkirtilsins.
Ungmennin krefjast 5,4 milljóna dollara, eða um 700 milljóna króna, í skaðabætur frá fyrirtækinu sem rekur kjarnorkuverið, Tokyo Electric Power Company (Tepco). Sérfræðingar telja þó að þeim muni reynast erfitt að sanna að kjarnorkuslysið hafi leitt til krabbameinsins.
Fukushima kjarnorkuslysið varð þann 11. mars 2011 eftir að stór jarðskjálfti leiddi til þess að flóðbylgja skall á austurströnd Japans. Kjarnorkuverið eyðilagðist í flóðbylgjunni og geislavirk efni láku út í nærliggjandi svæði.
Kjarnorkuslysið var sagt það versta síðan kjarnorkuslysið varð í Tsjernóbíl árið 1986 en var talið hafa mun minni áhrif á íbúa í nágrenninu þar sem minna magn geislavirkra efna lak út í náttúruna.
Hópur sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna ákvörðuðu í fyrra að slysið hafi ekki leitt til neinna heilsufarsvandræða meðal íbúa og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út skýrslu árið 2013 þar sem fram kom að slysið myndi ekki leiða til aukinnar krabbameinstíðni á svæðinu.
Langtímaáhrif slyssins hafa þó verið deilumál og árið 2018 tilkynntu japönsk yfirvöld að einn starfsmaður hafi dáið í kjölfar útsetningar fyrir geislavirkni. Fjölskyldu mannsins voru greiddar bætur af ríkinu vegna þessa.
Ungmenin sex vilja nú meina að allar líkur séu á því að þau hafi þróað með sér krabbamein eftir að hafa verið útsett fyrir geislavirkni. Ekkert ungmennanna, sem nú eru 17 til 27 ára gömul, á fjölskyldumeðlim sem greinst hefur með skjaldkirtilskrabbamein.