Körfubolti

Stór­feng­legur LeBron setti met er Lakers vann loks leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Golden State gátu lítið annað gert en horft á LeBron í nótt. Hann var ósnertanlegur.
Leikmenn Golden State gátu lítið annað gert en horft á LeBron í nótt. Hann var ósnertanlegur. NBA

Alls fóru sex leikir fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Einn bar höfuð og herðar yfir aðra en Los Angeles Lakers vann Golden State Warriors þökk sé lygilegri frammistöðu LeBron James. Þá steig Spence Dinwiddie upp hjá Dallas Mavericks í fjarveru Luka Dončić.

Bæði Lakers og Warriors komu inn í leikinn með þá von um að enda slæmt gengi. Lakers þarf reyndar meira en einn sigur til þess en eftir fjögur töp í röð varð liðið einfaldlega að ná í sigur. Eftir að hafa byrjað tímabilið vel hefur Golden State fatast flugið og liðið hafði tapað þremur leikjum í röð áður en það heimsótti Los Angeles.

Leikurinn var jafn í upphafi en Lakers var ívið sterkari er leið á fyrsta leikhluta og leiddi með sjö stigum að honum loknum. Fljótt skipast veður í lofti en Warriors kom til baka í öðrum leikhluta og vann hann með tólf stiga mun og var því fimm stigum yfir í hálfleik.

Um tíma í þriðja leikhluta var munurinn kominn upp í 12 stig en LeBron sá til þess að sýnir menn voru enn bara fimm stigum undir er fjórði leikhluti hófst. Í kjölfarið tók hann einfaldlega yfir leikinn.

Með leikinn á línunni þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks þá jafnaði LeBron metið með þriggja stiga körfu lengst utan af velli. Hann fylgdi henni eftir með því að setja aðra slíka í næstu sókn og koma Lakers yfir.

Stephen Curry gerði sitt besta til að halda sínum mönnum inn i leiknum en allt kom fyrir ekki og LeBron – Lakers – landaði loks sigri, lokatölur 124-116.

Að reyna finna lýsingarorð yfir frammistöðu hins 37 ára gamla LeBron James í nótt er erfitt. Hann skoraði 56 stig, tók 10 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hann er nú elsti leikmaður í sögu deildarinnar til að skora yfir 55 stig og taka 10 fráköst í einum og sama leiknum.

Russell Westbrook skoraði 20 stig í liði Lakers ásamt því að taka 4 fráköst og gefa 4 stoðsendingar. Þá skoraði Carmelo Anthony 14 stig og tók 8 fráköst.

Hjá Warriors skoraði Curry 30 stig, tók 4 fráköst og gaf 1 stoðsendingu. Þar á eftir kom Jordan Poole með 23 stig á meðan Klay Thompson skoraði 7 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Dallas Mavericks var án Luka og lenti í tómu tjóni gegn Sacramento Kings. Kóngarnir leiddu með allt að 19 stigum á einum tímapunkti í leiknum en tókst á endanum að vinna eins stigs sigur þökk sé þriggja stiga körfu Dorian Finney-Smith þegar 3,3 sekúndur voru til leiksloka, lokatölur 114-113.

Spencer Dinwiddie var frábær í liði Dallas en hann skoraði 36 stig og gaf 7 stoðsendingar. Þar á eftir kom Jalen Brunson með 23 stig og Finney-Smith skoraði 17, þar á meðal sigurkörfuna. Hjá Kings var De‘Aaron Fox stigahæstur með 44 stig.

Miami Heat átti í litlum vandræðum með Philadelphia 76ers sem lék án James Harden í nótt, lokatölur þar 99-82 í frekar rólegum leik þar sem sóknarleikur 76ers var í molum frá upphafi til enda. Jimmy Butler og Tyler Herr skoruðu báðir 21 stig í liði Heat á meðan Joel Embiid skoraði 22 stig og tók 15 fráköst fyrir Philadelphia.

Karl-Anthony Towns skoraði 36 stig og tók 15 fráköst er Minnesota Timberwolves vann Portland Trail Blazers 135-121. 

Ja Morant skoraði 25 stig er Memphis Grizzlies vann Orlando Magic örugglega, 124-96. 

Þá skoraði Terry Rozier 31 stig er Charlotte Hornets vann San Antonio Spurs 123-117.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×