Hart hefur verið barist í Kænugarði frá því í gærkvöldi og minnst tveir féllu í borginni í morgun í stórskotaliðsárás Rússa. Þá hæfði eldflaug íbúðablokk í Kænugarði í morgun og berjast slökkviliðsmenn nú við eldana sem kviknuðu í blokkinni í kjölfarið. Enn eru einhverjir fastir inni í blokkinni.
Miklar sprengingar heyrðust í höfuðborginni í morgun og segir Óskar í samtali við fréttastofu að loftvarnaflautur hafi gengið nær stanslaust í allan morgun. Heyra megi sprengingar og skotárásir í nágrenninu og herþotur fljúga yfir borgina.
„Við vöknuðum klukkan fimm við massívar sprengingar og læti beint fyrir utan hjá okkur. Við héldum að það væru sprengingar á húsinu okkar. Við vitum ekkert hvað er í gangi en það er massív brunalykt, svona sprengingar-púðurlykt úti. Núna er klukkan að verða sex og sólin komin upp,“ segir Óskar í myndbandi sem hann tók upp í morgun og sendi fréttastofu.
Hann segist mjög þreyttur eftir nóttina, þau hjónin hafi varla sofið og lagt sig inni á baði, sem þau hafa notað sem hálfgert sprengjuskýli.
Samkvæmt frétt AP eyðilagðist inngangurinn að aðalneðanjarðarlestarstöðinni, sem hefur verið notuð sem sprengjubyrgi af mörgum í Kænugarði, í sprengjuárás í morgun.
Óskar segir að skothríðin í borginni í gærkvöldi hafi verið sú fyrsta sem hann heyrði í nokkra daga.