Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um varnaræfinguna Norður-Víking, sem fram fer dagana 2. til 14. apríl næstkomandi. Í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytis segir að megintilgangurinn sé að æfa varnir sjóleiða umhverfis Ísland sem og mikilvægra innviða, eins og fjarskiptakapla. Til hafi staðið að halda æfinguna vorið 2020 en vegna heimsfaraldursins hafi þeim áformum verið slegið á frest.
Um sé að ræða reglubundna tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku fleiri vina- og bandalagsríkja en einnig taki þátt í henni sjóherir Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Noregs. Liður í Norður-Víkingi sé svo lending bandarískra landgönguliða við Miðsand í Hvalfirði.

Í ljósi tímasetningarinnar spyrja eflaust margir hvort þessi æfing núna tengist spennu NATO-ríkja og Rússlands vegna Úkraínu. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, fullyrðir að svo sé ekki og bendir á að æfingunni hafi áður verið frestað vegna covid og að slíkar heræfingar séu undirbúnar með löngum fyrirvara.
Þá sé í samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006 gert ráð fyrir slíkum æfingum reglulega. Þetta sé hluti af því.
„Þessi tiltekna æfing, Norður-Víkingur, var fyrst 1982 þannig að það eru engar líkur á því að þetta tengist Úkraínumálinu,“ segir Albert, sem er sérfræðingur í utanríkis- og varnarmálum.
-Þannig að það er ekki verið að senda Rússum nein sérstök skilaboð með því að hafa æfingar hér?
„Það tel ég alveg útilokað og ekkert sem bendir til þess,“ svarar Albert.

Af Íslands hálfu taka Landhelgisgæslan og lögreglan þátt í þeim hluta æfingarinnar sem snýr að leit og björgun almennra borgara. Alls er reiknað með að heildarfjöldi þátttakenda í æfingunni á Íslandi verði rúmlega 700 manns, um helmingur þeirra verður á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Þar sem heræfingarnar fara að miklu leyti fram á hafinu í kringum landið verður almenningur lítið var við þær. Það væri helst að menn gætu séð hertól þegar æfingunum lýkur um páskana en þá er von á allt að fjórum herskipum í heimsókn til Reykjavíkur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: