Umfjöllun og viðtöl: Valur - Þór Ak 129-84 | Skyldusigur hjá heimamönnum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Valsmenn unnu öruggan sigur í kvöld.
Valsmenn unnu öruggan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Valur átti ekki í miklum vandræðum með að næla sér í tvö stig þegar liðið fékk Þór Akureyri í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda í 20. umferð Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Valsarar byggðu hægt og bítandi upp öruggt forskot í fyrri hálfleik en 31 stigi munaði á liðunum þegar liðin gengu til búningsherbergja eftir tvo leikhluta. Lokatölur í leiknum urðu svo 129-84 Val í vil.

Þriggja stig skotnýting leikmanna Vals var einkar góð í fyrri hálfleik en 11 af 16 þriggja stiga skotum Valsliðsins rötuðu ofan í körfuna. Þar af var Pablo Cesar Bertone með þriggja stiga körfur.

Valur hélt í horfinu í seinni hálfleik og Finnur Freyr Stefánsson gat rúllað liðinu vel en stutt er í næsta verkefni liðsins. Sveinn Búi Birgisson átti góða innkomu inn í leikinn en hann skoraði 15 stig á þeim 23 mínútum sem hann spilaði. 

Af hverju vann Valur?

Skotnýting Vals var frábær bæði fyrir innan og utan þriggja stiga línuna. Þá var sóknarleikur Þórs fremur stirður og tapaðir boltar enduðu trekk í trekk í auðveldum körfum Valsmanna.

Valur hefur eftir þennan sigur 24 stig þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni en liðið er í harðri baráttu við Stjörnuna, Tindastól og Grindavík um heimaleikjarétt í úrslitakeppni deildarinnar.

Hverjir stóðu upp úr?

Jacob Dalton Calloway skoraði 38 stig í leiknum en fjögur af fimm þriggja stiga skotum hans fóru ofan í, 11 af 15 tveggja stiga tilraunum og öll fjögur vítaskot hans. August Emil Haas var stigahæstur hjá Þór með 19 stig en Kolbeinn Fannar Gislason og Páll Nóel Hjálmarsson settu svo niður 15 stig hvor. 

Hvað gerist næst?

Valur fær Breiðablik í heimsókn í Origo-höllina að Hlíðarenda á sunnudagskvöldið kemur en Þórsarar taka á móti KR í Höllinni á Akureyri sama kvöld.

Finnur Freyr: Gott að það sé stutt á milli leikja

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.Vísir/Hulda Margrét

„Það var gott að fá leik þar sem leikmenn hittu boltanum vel og við gátum hreyft mannskapinn mikið. Innkomur Sveins Búa og Ástþórs Atla glöddu mig og það var gaman að geta leyft ungum leikmönnum að spreyta sig," sagði Finnur Freyr léttur í lundu eftir leikinn. 

„Við fáum svo annað verkefni bara strax á sunnudaginn sem er bara frábært. Það er allir komnnir með hundleið á að æfa og klæjar í fingurna að spila leiki sem skipta máli. Körfuboltasamfélagið allt er að lifna við og það er áþreifanlegt að úrslitakeppnin sé að nálgast.

Þó svo að við viljum klárlega fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni finnst mér deildin vera það jöfn að það skipti ekki miklu máli hvaða liði við mætum í átta liða úrslitunum," sagði þjálfari Vals enn fremur.  

Bjarki Ármann: Þessar mínútur fara í reynslubankann

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs.Vísir/Vilhelm

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, var nokkuð brattur þrátt fyrir slæmt tap: „Við áttuðum okkur alveg á því fyrir leikinn að þetta yrði erfitt. Það eru hér ungir leikmenn að fá mikilvæga reynslu af því að spila við landsliðsmenn og öfluga erlenda leikmenn," sagði hann. 

„Spilamennska Páls Fannars og Kolbeins Fannars sem dæmi voru gleðiefni og þessar mínútur hjá okkur ungu og efnilegu leikmönnum munu skila sér í framtíðinni. Þrátt fyrir að staðan sé svört þá er stemmingin fara fín norðan heiða og við ætlum að klára þetta með stæl," sagði Bjarki Ármann um framhaldið. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira