Jónas Ottósson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Vesturlandi, staðfestir að styttan sé komin í hald lögreglu, í samtali við Ríkisútvarpið.
„Heyrðu hún var nú bara haldlögð í Reykjavík fyrr í dag fyrir ekki svo löngu síðan og í þessum töluðum orðum er hún að lenda á Akranesi á flutningabíl," segir hann. Jónas segir jafnframt að styttan verði geymd á lögreglustöðinni á Akranesi á meðan hún er rannsökuð.
Hann segir ákvörðun um ákæru ekki hafa verið tekna í málinu en Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, hefur kært stuldinn.
Styttunni var stolið sjöunda þessa mánaðar og tveimur dögum seinna kom hún í leitirnar fyrir utan Nýlistasafnið en þó í nýjum búningi. Henni hafði verið komið fyrir inni í stærðarinnar eldflaug.
Síðar kom í ljós að styttunni hafði verið stolið sem hluta af listrænum gjörningi. Listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir komu styttunni fyrir í eldflaug á skotpalli og segja um að ræða nýtt verk sem þær hafi nefnt Farangursheimild: Fyrsta hvíta móðirin í geimnum.
Bryndís segir að með því að setja styttuna inn í þessa geimflaug vilji þær spyrja hvaða hagsmunum það þjóni að ramma inn ferðir Guðríðar Þorbjarnardóttir og vísa til hennar sem fyrstu hvítu móðurinnar sem nemi land í Ameríku.