Skoðun

Talna­blekkingar í Hafnar­firði

Arnhildur Ásdís Kolbeins skrifar

Ábyrg fjármálastjórnun sveitarfélaga er afar mikilvæg og hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Hafnarfirði stært sig af því að hafa sýnt ábyrga fjármálastjórnun, sérstaklega hvað varðar árangur við að ná niður skuldum. En er það svo? Sér rýnt í nýjasta ársreikning sveitarfélagsins og hann borinn saman við ársreikning 2017 kemur í ljós að árangur meirihlutans í þessum efnum er einfaldlega alls ekki góður.

Á kjörtímabilinu hafa skuldir aukist um 10 milljarða, eða úr 40 milljörðum í 50 milljarða. Hér er um að ræða 25% aukningu skulda á kjörtímabilinu og því alrangt að halda því fram að skuldir hafi lækkað á kjörtímabilinu. Skuldahlutfall í ársreikningi hefur vissulega lækkað úr 159% í 148% á tímabilinu, en þá þarf að hafa í huga að þegar skuldahlutfall er reiknað, er deilt í heildarskuldir með heildartekjum. Á árinu 2021 er tekjufærð lóðasala upp á 2,5 milljarð sem skekkir verulega myndina. Sala á lóðum hefur ekkert að gera með raunverulegan rekstrarlegan árangur, enda hefur lóðasala verið stopul í sveitarfélaginu og því er hér um að ræða óreglulegar tekjur. Séu tekjur vegna lóðasölu teknar út fyrir sviga kemur í ljós að skuldahlutfall án tekna vegna lóðasölu er nákvæmlega það sama á árinu 2021 og 2017. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur því ekki náð neinum árangri á kjörtímabilinu varðandi lækkun skulda eða bættan rekstur. Enda hefur íbúum ekki fjölgað og skattstofnar því ekki stækkað svo sem nauðsynlegt er til að halda uppi heilbrigðum rekstri og mæta auknum kröfum um þjónustu.

Þrátt fyrir framangreindar tekjur vegna lóðasölu er tap á rekstri sveitarfélagins sem nemur 709 milljónum, en tapið væri ríflega 3 milljarðar án lóðasölunnar. Því er ljóst að reksturinn er fjarri því að vera sjálfbær.

Á meðan skatttekjur hafa aukist um 22% á kjörtímabilinu hefur íbúafjöldi staðið í stað, rekstrargjöld hafa hækkað um 44% og skuldir um 25%.

Stærsti gjaldaliður sveitarfélagsins eru launaútgjöld, eða ríflega helmingur. Launaútgjöld sveitarfélagsins hafa aukist um 45% á sama tíma og launavísitala Hagstofunnar hefur einungis hækkað um 27%, enda hefur stöðugildum bæjarfélagsins fjölgað um 14% á kjörtímabilinu, þrátt fyrir að íbúum bæjarins hafi ekki fjölgað.

Miðflokkurinn og óháðir í Hafnarfirði munu beita sér fyrir raunverulegum árangri í fjármálastjórnun sveitarfélagsins. Við ætlum að sjá til þess að lóðaframboð verði nægt og stöðugt, þannig að sveitarfélagið geti vaxið jafnt og þétt og auka íbúalýðræði á þann hátt að íbúar fái þann sjálfsagða rétt að kjósa um allar meiriháttar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins. Með þeim hætti fáum við íbúar Hafnarfjarðar að ráða því hver forgangsröðun er við ráðstöfun okkar fjármuna. Jafnframt munum við gera úttekt á rekstri sveitarfélagsins og finna leiðir til aukinnar hagkvæmni, m.a. með auknum útboðum vegna framkvæmda og viðhalds eigna.

Settu X við M á kjördag fyrir ábyrga fjármálastjórnun.

Höfundur er viðskiptafræðingur og viðskiptalögfræðingur og skipar 2. sætið á M lista Miðflokks og óháðra í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×