Hlutfall kvenna í borgarstjórn jókst verulega eftir síðustu borgarstjórnarkosningar árið 2018. Þá náðu fimmtán konur kjöri sem borgarfulltrúar en átta karlar. Konur voru þannig 65,2% borgarfulltrúa. Þær höfðu verið sjö af fimmtán fulltrúum kjörtímabilið 2014-2018, 46,7% fulltrúa.
Vegna veikinda Egils Þórs Jónssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hafa konurnar verið sextán í borgarstjórn en Jórunn Pála Jónasdóttir hefur leyst hann af frá því í fyrra.
Eftir kosningarnar í gær verða konur 56,6% borgarfulltrúa.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í nýrri borgarstjórn með sex fulltrúa en kynjahlutföll eru jöfn á meðal borgarfulltrúa hans. Þær Hildur Björnsdóttir og Ragna Alda María Vilhjálmsdóttir skipuðu tvö efstu sæti framboðslistan en auk þeirra náði Marta Guðjónsdóttir kjöri.
Hjá Samfylkingunni eru tveir af fimm borgarfulltrúum konur, þær Heiða Björg Hilmisdóttir og Sabine Leskopf. Tveir af fjórum borgarfulltrúum Framsóknar eru konur, þær Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Magnea Gná Jóhannsdóttir.
Tveir af þremur fulltrúum Pírata eru konur, oddvitinn Dóra Björt Guðjónsdóttir og Alexandra Briem sem hefur verið forseti borgarstjórnar. Annar tveggja borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins er Sanna Magdalena Mörtudóttir.
Einu borgarfulltrúar Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna eru konur, þær Kolbrún Baldursdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Líf Magneudóttir.
Af öðrum stærstu sveitarfélögum landsins eru konur í meirihluta í Kópavogi (sjö af ellefu bæjarfulltrúum), Reykjanesbæ (sjö af ellefu), Garðabæ (sex af ellefu) og Mosfellsbæ (sjö af ellefu).