Musk bauð 44 milljarða dollara í Twitter í apríl. Síðan þá hafa kenningar verið uppi um að hann vilji losa sig undan samningnum eða greiða lægri fjárhæð fyrir miðilinn. Musk ætlar meðal annars að fjármagna kaupin með hlutabréfaeign sinni í rafbílaframleiðandanum Tesla. Þau bréf hafa fallið í verði um þriðjung frá því að tilkynnt var um kaupin.
Í síðustu viku lýsti Musk því yfir á Twitter að viðskiptin væru í bið á meðan mat færi fram á hversu hátt hlutfall Twitter-reikninga væri óekta. Fyrirtækið sjálft telur það innan við 5% notenda. Á tækniráðstefnu í Míamí í gær hélt Musk því fram að hlutfallið væri að minnsta kosti 20%, að sögn AP-fréttastofunnar.
Hann hélt áfram á sömu slóðum í tísti í dag þar sem hann sagði að kaupin gætu ekki gengið í gegn fyrr en Twitter legði fram opinbera sönnun þess að innan 5% reikninga væru yrki eða amapóstar.
„Tilboð mitt var grundvallað á því að tilkynningar Twitter til verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna (SEC) væru réttar,“ tísti Musk.
Parag Agrawal, forstjóri Twitter, viðurkennir að fyrirtækið hafi ekki fullkomna yfirsýn yfir hversu margir reikningar eru yrki. Það hafi þau ítrekað áætlað að þau séu innan við 5% notenda. Í tilkynningum sínum til SEC hefur fyrirtækið þó slegið varnagla við að það mat sé rétt og hlutfallið gæti verið hærra.