Kristinn fæddist 22. nóvember 1940 í Reykjavík. Hann lauk sveinsprófi við Félagsprentsmiðjuna árið 1961 og starfaði lengst af við prentun. Hann stofnaði Formprent árið 1970 og stýrði því næstu rúmu 50 árin.
Hann lék fótbolta með KR á gullaldarárum félagsins og lék alls 81 leik fyrir félagið. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu 1965 og bikarmeistari árin 1962, 1964, 1966 og 1967. Hann var öflugur í félagsstarfinu hjá KR og var formaður knattspyrnudeildar félagsins frá 1976 til 1980.
Þá varð hann formaður félagsins árið 1991 og var í tólf ár, til 2003. Hann var sæmdur gullstjörnu KR árið 1999 og var einnig gerður að heiðursfélaga. Þá vann hann einnig gott starf fyrir knattspyrnuhreyfinguna í heild og var sæmdur silfurmerki KSÍ árið 1987 og gullmerki sambandsins árið 1992.