Enski boltinn

Héldu þjálfaranum allt landsleikjahléið en ráku hann svo á leikdag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arveladze var frábær framherji á sínum tíma og átti sín bestu ár með Ajax í Hollandi og Rangers í Skotlandi. Hann þarf nú að leita að nýju starfi.
Arveladze var frábær framherji á sínum tíma og átti sín bestu ár með Ajax í Hollandi og Rangers í Skotlandi. Hann þarf nú að leita að nýju starfi. Athena Pictures/Getty Images

Enska knattspyrnuliðið Hull City hefur rekið þjálfara liðsins, Georgíumanninn Shota Arveladze, aðeins örfáum klukkustundum fyrir leik Hull og Luton í ensku B-deildinni sem fram fer í kvöld.

Arveladze tók við Hull í janúar og liðið náði undir hans stjórn að halda sæti sínu í deildinni eftir fallbaráttu í vor. Arveladze hefur verið undir pressu síðustu vikur þar sem Hull situr í 20. sæti deildarinnar með ellefu stig, einu frá fallsæti.

Stjórnendur hjá Hull funduðu ítrekað með Georgíumanninum um stöðu hans á meðan nýaafstöðnu tveggja vikna landsleikjahléi stóð en komust ekki að niðurstöðu. Þeir ákváðu svo að rífa í gikkinn í dag, tveimur vikum eftir síðasta deildarleik liðsins, og á leikdag í þokkabót.

„Á meðan landsleikjahléinu stóð áttum við fjölmarga fundi með Shota til að ræða stefnu félagsins og framtíð þess. Eftir því sem leið á fundina kom í ljós að okkar framtíðarsýn er ekki í samræmi við hans svo við höfum ákveðið að hér munu leiðir skilja,“ segir Acun Ilicali, stjórnarformaður Hull.

Hull og Luton mætast klukkan 19:00 í kvöld en Luton er með 13 stig í 11. sæti í afar jafnri deildinni. Hull, sem er aðeins stigi frá fallsæti, getur stokkið upp í efri hluta töflunnar með sigri.

Andy Dawson, sem var í þjálfarateymi Hull, mun stýra liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×