„Þessi leikur tók á taugarnar en ánægjulegt að ná að loka þessu þar sem mér fannst við vera með leikinn allan tímann en við stífnuðum undir lokin sem var mögulega afleiðing á því að hafa tapað fyrstu þremur leikjunum,“ sagði Helgi Már Magnússon og hélt áfram að tala um hversu mikill léttir það væri að komast á blað í deildinni.
„Það var ótrúlega góð orka í okkur í fyrsta leikhluta þar sem flæðið var frábært og skotin duttu. Síðan hægðist á okkur þar sem Þór Þorlákshöfn er með gott lið og ég hef engar áhyggjur af þeim. Vonandi náum við að byggja ofan á þennan sigur.“
KR var í bílstjórasætinu allan leikinn en heimamenn komu til baka og jöfnuðu leikinn rétt áður en fjórði leikhluti kláraðist sem varð til þess að leikurinn fór í framlengingu.
„Davíð Arnar gerði vel í að koma sér fyrir og ná að setja boltann ofan í eftir mikla baráttu. Undir lokin fannst mér við stífna á síðustu mínútunum. Við þurfum að finna betur út úr því hvað við viljum gera í brakinu. Ég man ekki hvenær ég vann leik hérna í Þorlákshöfn síðasta. Það hefur held ég verið í úrslitakeppninni í gamla daga þar sem ég hef ekki unnið hérna í mörg ár.“
Helgi var afar ánægður með hvernig KR spilaði í framlengingunni og hrósaði Degi Kár Jónssyni fyrir sína leiðtogahæfni.
„Dagur var stórkostlegur það var risastórt að setja öll þessi víti niður með pressuna á sér. Hann klikkaði á stóru víti á móti Breiðabliki og það sýnir karakterinn sem hann hefur þar sem hann sækist í svona augnablik. Dagur vildi fá boltann undir lokin og hann var frábær í kvöld ásamt öðrum,“ sagði Helgi Már Magnússon að lokum.