Fótbolti

Skoraði óvart mögulega mark ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jens Verhellen hafði ekki skorað mark í fjögur ár þegar hann „hreinsaði“ boltann í marki mótherjanna.
Jens Verhellen hafði ekki skorað mark í fjögur ár þegar hann „hreinsaði“ boltann í marki mótherjanna. Twitter/@JamesL1927

Knattspyrnumaður úr fjórðu deildinni í Belgíu er talinn eiga möguleika á að vinna verðlaun Alþjóða knattspyrnusambandsins yfir flottasta mark ársins.

Það besta við það að leikmaðurinn ætlaði sér aldrei að skora þegar hann spyrnti svona hressilega í boltann.

Jens Verhellen er varnarmaður hjá belgíska félaginu KVK Avelgem og mjög langt frá því að vera þekkt nafn í boltanum. Hann er líka mjög sjaldan meðal markaskorara sinna liða.

Það er hins vegar þetta nafn sem sumir búast við að sjá á listanum yfir þau mörk sem verða tilnefnd til FIFA Puskas markaverðlaunanna á næsta ári.

Verhellen var að spila við erkifjendurna í KSV De Ruiter um síðustu helgi þegar hann ákvað að hreinsa boltann frá á hægri vængnum.

Verhellen hitti boltann mjög vel og hann sveif alla leið í markið. Leikmaðurinn sjálfur var ekkert að fylgjast með hvert boltinn fór enda var hann bara að bægja hættunni frá.

„Við höfðum fengið horn og mótherjarnir gerðu sig líklega til að ná skyndisókn,“ sagði þessi 24 ára leikmaður í viðtali við belgíska blaðið Nieuwsblad.

„Okkar lið var ekki skipulagt til að verjast þessari sókn þeirra þannig að ég var bara að hugsa um að koma boltanum langt í burtu svo við höfðum tíma til að setja upp vörnina,“ sagði Jens Verhellen.

„Allt í einu fögnuðu allir. Svo ég alls ekki von á að skora. Ég hafði heldur ekki skorað mark í fjögur ár,“ sagði Verhellen. Það má sjá markið ótrúlega hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×