Anníe Mist sýndi myndbrot af sér þar sem hún tók hið krefjandi inngöngupróf í sérsveit ríkislögreglustjóra, sem um árabil gekk undir heitinu Víkingasveitin.
Anníe sýndi frá því þegar að hún þurfti að hlaupa upp háan stigagang, gera alls kyns CrossFit æfingar í sal og svo synda og bjarga skyndihjálparbrúðu af botni sundlaugar.
„Farið út fyrir þægindarammann og búið til ný mörk. Reyndi við prófið inn í íslensku sérsveitina sem er kölluð Víkingasveitin,“ skrifaði Anníe Mist og birti myndband af sér á fullri ferð en það má sjá hér fyrir neðan.
Víkingasveitin ætti auðvitað að taka fagnandi á móti ofurkonu eins og Anníe Mist sem hefur keppt meðal þeirra bestu í CrossFit heiminum í meira en þrettán ár og er hvergi nærri hætt. Eða það vonum við að minnsta kosti því hún er frábær fulltrúi Íslands í CrossFit heiminum.
Framganga Anníe vakti athygli í CrossFit heiminum. Khan Porter, liðsfélagi hennar í CrossFit Reykjavíkurliðinu frá því í sumar, spurði meðal annars hvort hann þyrfti íslenskt vegabréf til að komast í Víkingasveitina.
Porter grínaðist líka með að hann væri að spyrja fyrir vin sinn Tola Morakinyo sem var líka með þeim í liðinu. Smá innanhússhúmor en það fer ekkert á milli mála að það var frábær stemmning í CrossFit Reykjavíkurliðinu.
Anníe Mist lofaði líka að sýna meira frá þessu ævintýri sínu á Youtube síðu sinni á næstunni.
Það fylgir líka sögunni að Anníe Mist var bara að prufa inntökuprófið því hún er ekkert á leiðinni í Víkingasveitina þrátt fyrir að jafa örugglega komið mjög vel út úr þessu prófi.