Hinn 30 ára gamli Björn var hluti af sigursælu liði KR-inga og ljóst er að hans er sárt saknað um þessar mundir en það gengur hvorki né rekur í Vesturbænum. KR mátti þola vandræðalegt tap þegar Íslandsmeistarar Vals komu í heimsókn í gærkvöld og lengi virðist vont ætla að versna í Frostaskjóli.
Fyrir leik gærdagsins var Björn heiðraður og í dag tilkynnti KR formlega á vefsíðu sinni að Björn myndi ekki spila meira á þessari leiktíð. Raunar er óvíst hvort hann geti spilað körfubolta aftur en ítarlegt viðtal við Björn birtist á Vísi í fyrramálið, þriðjudaginn 22. nóvember.
„Allir muna eftir 3ja stiga körfu gegn Haukum sem tryggði KR í úrslitin árið 2018 en Bjössi hefur aldrei verið hræddur við stóru stundirnar þar sem mikið var undir. Björn er frábær félagsmaður, góður liðsfélagi og sigurvegari að KR sið,“ segir á vef KR um leikmanninn.
Kristófer Acox, fyrrverandi leikmaður KR og núverandi Íslandsmeistari, skilaði kveðju á góðvin sinn Björn að leik loknum í gær: „Til hamingju með frábæran feril. Ég elska þig Björn. Gangi þér vel í vetur.“
Alls varð Björn fjórum sinnum Íslandsmeistari með KR og einu sinni bikarmeistari.