RÚV greinir frá þessu. Í samtali við fréttastofu segir Hólmgeir Þorsteinsson, verkefnastjóri þjónustu hjá Isavia á Akureyrarflugvelli, að vélin hafi lent heilu höldnu á flugvellinum.
„Það kom bara útkall og við fórum í viðbragð. Viðbragðsáætlun vegna flugslysa er virkjuð á undirbúningsstigi, hættustigi eins og það er kallað,“ segir Hólmgeir.
Vélin var á vegum flugfélagsins Mýflugs og segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri félagsins, að vélin hafi verið á leið að sækja sjúkling á Ísafirði þegar upp komu tæknilegir örðugleikar. Hann gat ekki staðfest hvað átti sér nákvæmlega stað.