Fram kemur á vef Stjórnarráðsins að þann 4. janúar hafi farið fram fundur neyðarráðs Evrópusambandsins (IPCR) eftir fundi aðildarríkja sambandsins 29. desember og 3. janúar.
„Í framhaldi af þessum fundum voru gefin út tilmæli sem miða að því að samræma nálgun landa vegna útbreiðslu Covid-19 í Kína. Tilmælin eru ekki bindandi og gert ráð fyrir að lönd aðlagi þau að aðstæðum sínum.“
Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis eru tilmælin rakin og rök sóttvarnalæknis fyrir því mati að ekki séu faglegar ástæður til þess að grípa til aðgerða á landamærum hér á landi.
Í minnisblaði sóttvarnalæknis segir að með auknu eftirliti alþjóðlegra sóttvarnastofnana og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), auk þeirra aðgerða sem Evrópulönd með beinar flugtengingar við Kína eru að vinna að sé hugsanlegt að á næstu vikum komi fram upplýsingar sem gefi tilefni til að endurskoða áhættumatið.
Minnisblað sóttvarnalæknis má lesa hér að neðan.