Dóttir hans Edda Mjöll Karlsdóttir tekur föður sinn ítrekað upp þegar hann dansar í stúkunni eða horfir á leiki heima í stofunni þar sem stressið tekur algjörlega yfir.
„Það eru margir búnir að spyrja mig hvort ég sé nokkuð að horfa á leikina en ég næ sko að taka upp og horfa og hann er alltaf í sviðsljósinu,“ segir Edda og hlær.
Kalli segir að danssporin hans séu í raun bara tilfinningar.
„Ég held að allir séu svona heima hjá sér en ég held að það séu ekki allir að birta þetta á facebook eða TikTok. Ég held að hver einasti Íslendingur sé svona þegar þeir eru að horfa á leik með íslenska landsliðinu,“ segir Kalli.
„Ég er bara alin upp við þetta og svona hefur þetta verið á heimilinu mínu alla mína ævi. Ég byrjaði að taka þetta upp og svo bara hafði fólk svona mikinn áhuga á þessu. Ég á fullt af myndböndum af honum sem eru alveg tíu ára gömul svo ef fólk vill sjá það, þá bara er um að gera að hafa samband,“ segir Edda en sum myndböndin hennar af föður sínum eru með yfir hundrað þúsund spilanir á vefnum.
„Ég er ekkert mikið að pæla í þessari athygli en auðvitað þegar krakkinn er búinn að henda þessu inn þá óneitanlega byrjar síminn að hringja. En mig langar að bæta einu við, dóttir mín er 29 ára, hún er á lausu og getur ekki bara einhver, bara einhver,“ segir Kalli og hlær.
Hér að neðan má síðan sjá Kalla í stúkunni að lifa sig vel inn í leik íslenska landsliðsins.