„Forseti hlýtur að gera athugasemdir við það að fjarstaddir menn séu uppnefndir hér ítrekað í ræðustól. Jafnvel þó þingmönnum geti verið heitt í hamsi. Og þó þeir hafi athugasemdir við embættisfærslur einstakra manna þá er ekki í samræmi við þingsköp að uppnefna fjarstadda menn sem eru þar að auki ekki hér til að svara fyrir sig,“ segir Birgir og sló í bjöllu sína.
Fjárhagsleg hryðjuverkastarfsemi
Guðmundur Ingi gerði stýrivaxtahækkanir Seðlabankans að undanförnu að umtalsefni.
„Á einu ári hefur ofsatrúarmaðurinn í Seðlabankanum aukið mánaðarlegar greiðslur á unga fólkið okkar sem er að stofna sitt fyrsta heimili um 130 til 200 þúsund krónur á mánuði. Þetta er ein og hálf milljón til þrjár milljónir á ári. Þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi,“ sagði Guðmundur í upphafi sinnar ræðu. Hann var bara að hita upp.

„Með stanslausum hækkunum á stýrivöxtum heldur þessi fjárhagslega hryðjuverkastarfsemi áfram gagnvart ungu fólki sem getur á engan hátt varið sig. Fjárhagslega ofbeldið heldur áfram hjá hryðjuverkabankastjóranum við Arnarhól sem hefur ofsatrú á hækkunum stýrivaxta sem bitna ekki á honum eða hans fólki sem eru á ofurlaunum, nei, þetta fjárhagslega ofbeldi bitnar bara á þeim verst settu sem í góðri trú trúðu honum þegar hann talaði um lágvaxtalandi Ísland, sem hann væri búinn að skapa til framtíðar.“
Ofsatrúarmaðurinn við Arnarhól
Guðmundur Ingi sagði alveg ljóst að tekjur unga fólksins munu ekki standa undir þessu „stýrivaxtaofbeldi“ lengi, það getur enginn staðið undir greiðslubyrði sem farið hefur úr 30 prósent af ráðstöfunartekjum yfir í 60 til 70 prósent af þeim eða meira.“
Og þingmaðurinn spurði hvar ríkisstjórnin væri eiginlega? Hvar er hún?
„Hæstvirtur forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðust hafa fullt af ráðum til að vinna á verðbólgunni í óundirbúnum fyrirspurnum. Þau eru enn að skoða málið, virða það fyrir sér, hugsa um það. En gera svo ekkert og leyfa stýrivaxtaofsatrúarmanninum í Seðlabankanum að fá lausan tauminn með fjárhagslegu stýrivaxtaofbeldi fyrir heimilunum. Ríkisstjórnin situr aðgerðalaus og horfir alvarlegum augum í gaupnir sér. Og trúir í blindni á trúarbrögð í hagstjórninni og stórfurðulega hugmyndafræði seðlabankastjóra og hans liðs sem eru að sjá til þess að stærra og stærra hlutfall heimila ná ekki endum saman.“
Guðmundur sagði þetta leggja heimilin í rjúkandi rúst sagði að við svo búið mætti ekki standa.