Fall tveggja bandarískra banka hefur valdið nokkrum titringi á fjármálamörkuðum um heim allan meðal annars hér á landi. Annar þeirra Silicon Valley bankinn, er sá sextándi stærsti í Bandaríkjunum, og er gjaldþrot hans stærsta fall bandarísks banka frá árinu 2008. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir fall bankans sýna fram á mikilvægi þess að eftirlit með bönkum og fjármálastofnunum sé öflugt.
„Menn víðar spyrja sig hvort það geti verið veikleikar annars staðar. Þetta bara dregur fram mikilvægi þess að regluverkið um bankastarfsemi og fjármálafyrirtæki sé sterkt og ég tel að við höfum umbylt því á undanförnum rúmum áratug og stöndum bara nokkuð traustum fótum. Þetta hefur áhrif á markaðina mjög víða og birtist í verði hlutabréfa og álagi á fjármögnun og annað þess háttar og er að gerast þegar verðbólga er að mælast há og vextir hafa verið að hækka þannig að það eru áskoranir fyrir fjármálakerfin að fara í gegnum svona.“
Bjarni á von á að áhrifin af falli bankans muni fjara út.
„Þetta er svona skjálfti sem ég held að gangi yfir og eftir stendur og það mun koma í ljós að hér heima fyrir, eins og sakir standa, er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af fjármálastöðugleika.“