Þetta kemur fram í tilkynningu frá BHM vegna málsins en þar segir að samkomulagið sé á sambærilegum nótum og samningar sem þegar hafi verið gerðir á almennum vinnumarkaði. Það feli í sér prósentuhækkanir með ákveðnu lágmarki og hámarki í krónutölum og lagfæringar á launatöflum þar sem við á.
Verði samkomulagið samþykkt gilda samningar til 31. mars 2024 en markmiðið er að láta samninga taka við af samningum.
Samhliða samkomulaginu var undirritað sérstakt áfangasamkomulag um jöfnun launa milli opinbera og almenna markaðarins. Fyrsta innborgun komi til framkvæmda fyrsta október hjá þeim hópum sem búa mið mestan ójöfnuð, þeirra sem starfa við klíníska þjónustu innan heilbrigðisgeirans og við kennslu.
„Meirihluti þeirra sem starfa innan þessara stétta hjá opinberum launagreiðendum eru konur. Árum saman hafa verið sterkar vísbendingar um kerfisbundinn og ómálefnalegan launamun sem þarf að uppræta. Ef vel tekst til með þetta fyrsta skref mun það vonandi hafa varanleg áhrif til jöfnunar launa hjá þessum hópum og gefa skýrt fordæmi fyrir áframhaldandi vinnu og umbótum í mati á virði starfa,“ segir í tilkynningunni en markmiðið er að tryggja að laun séu samkeppnisfær til lengri tíma.
Um er að ræða ávinning samflots heildarsamtaka launafólks á opinberum markaði, BHM, Kennarasambands Íslands og BSRB. Fyrr í dag var greint frá því að aðildarfélög BSRB hafi náð samkomulagi við ríkið og Reykjavíkurborg.
Í tilkynningu frá BRSB sagði að forsvarsfólk fjórtán aðildarfélaga BSRB undirriti í kjölfarið kjarasamningana, sem gilda í tólf mánuði frá fyrsta apríl, en undir þau falla um 14 þúsund félagsmenn. Stéttafélagið Sameyki hefur þegar undirritað sína samninga við ríki og borg.