Innlent

Horfði á þátt í símanum á meðan hann keyrði

Máni Snær Þorláksson skrifar
Sviðsett mynd sem lögreglan á Suðurnesjum tók til að lýsa atvikinu.
Sviðsett mynd sem lögreglan á Suðurnesjum tók til að lýsa atvikinu. Lögreglan á Suðurnesjum

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í gærkvöldi bifreið vegna gruns um að ökumaður hennar væri að keyra undir áhrifum áfengis. Þegar lögreglan stöðvaði bílinn komst hún að því að ökumaðurinn var allsgáður en var að horfa á þátt í símanum sínum á meðan hann keyrði.

„Við héldum að við hefðum séð allt, en svo er víst ekki en vonandi fer þetta að tæmast,“ segir í upphafi færslu sem lögreglan á Suðurnesjum birti á Facebook-síðu sinni í nótt. 

Lögreglan segist hafa veitt bifreiðinni athygli eftir að hún rásaði ansi mikið á veginum.  „Grunaði okkar fólk ökumanninn fyrir að aka undir áhrifum áfengis, en það víst ekki svo. Ökumaður var einn á ferð og var að horfa á sjónvarpsþátt í símanum á meðan hann ók um göturnar,“ segir í færslu lögreglunnar.

Þá kemur fram að lögreglan hafi látið ökumanninn vita að þetta væri óheimilt. Auk þess hafi ökumaðurinn fengið „föðurlegt tiltal“, ábendingu um að gera þetta ekki aftur og fjörtíu þúsund króna sekt fyrir notkun farsíma við akstur.  

„Já kæru vegfarendur það er ekki í lagi að aka bifreið og horfa á sjónvarpsþátt í símanum á meðan og í raun afar einkennilegt að þurfa að minna á þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×