Borgarstjóri hefur sagt að samstarf borgarinnar og Isavia, sem byggir á samningi frá 2013, hafi hingað til gengið vel og skógurinn reglulega verið grisjaður. Krafan sem barst í sumar sé hins vegar af allt öðrum toga. Í kröfunni kemur fram að hæð trjánna sé raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum og þess krafist að Reykjavíkurborg bregðist við án tafar. Innviðaráðherra segir að öryggi fólks hljóti að hafa forgang fram yfir trén.
„Það var gert sérstakt samkomulag árið 2013 um að fella einhver tré og það hefur svo sem eitthvað hefur verið gert en á sama tíma vaxa þessi tré mjög hratt og þegar grenitré eru komin í svona mikinn vöxt þá kannski vaxa þau jafnvel um einn til einn og hálfan metra á ári við bestu skilyrði. Þannig að það þarf auðvitað að horfa til þess,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
„Flugvöllurinn er miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs í landinu. Öryggi þess fólks hlýtur alltaf að verða hærra sett heldur en einhverra trjáa sem við getum svo sannarlega gróðursett að nýju, annað hvort á sama stað sem vaxa minna eða verða ekki eins há, eða bara þá á fleiri stöðum.“
Hann telji því rétt að fjarlægja umrædd tré og að Isavia sé með kröfu sinni að sinna faglegu hlutverki sínu að tryggja flugrekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.
Kalli hugsanlega á umhverfismat
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt borgina hafa átt í góðu samstarfi við Isavia undanfarin ár og grisjað skóginn árið 2017 og svo fjarlægt um tíu tré á ári eftir það. Honum hafi brugðið þegar borginni barst umrædd krafa Isavia um að fella tæplega þrjú þúsund tré í sumar.
„Við vinnum þetta þannig að við auðvitað skoðum allt og fáum umsagnir. En það er ljóst að við höfum á undanförnum árum verið að auka vernd svokallaðra borgargarða eins og Öskjuhlíðin er og Elliðaárdalurinn. Svæðið er hverfisverndað í skipulagi sem er æðsta stig verndunar í gegnum deiliskipulag og hluti Öskjuhlíðar er á náttúruminjaskrá.
Þannig að svona stórfellt skógarhögg myndi kalla á mjög vandaða rýni og hugsanlega umhverfismat og ýmsar leyfisveitingar. Þetta er ekkert sem er hlaupið í og vekur auðvitað allskonar spurningar því Öskjuhlíðin hefur verið þarna býsna lengi. Þó að trén séu hærri en þau voru þegar þeim var plantað fyrir um sjötíu árum,“ sagði Dagur um málið fyrir rúmri viku.
Skógræktarstjóri hefur sagt að Skógræktin myndi ekki heimila að þrjú þúsund tré í Öskjuhlíðinni yrðu felld án þess að önnur yrðu gróðursett í staðinn. Á svæðinu þyrfti að vera áfram skógur.